Forsvarsmenn Búseta, Ístaks og bæjarstjóri tóku fyrstu skóflustunguna að nýju fimm íbúða raðhúsi félagsins í vikunni. Húsið verður fyrsta Svansvottaða bygging Búseta.
Umhverfisvænn hvati í Hafnarfirði
Fyrsta Svansvottaða húsnæði Búseta rís í Hafnarfirði. Fyrsta skóflustungan að fimm raðhúsum var tekin í dag, fimmtudaginn 22. maí.
Búseti húsnæðissamvinnufélag fékk úthlutað lóð að Axlarási 16–22 í lok síðasta árs. Nú hafa byggingaráform verið samþykkt og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á næstu vikum og ljúki í lok næsta árs.
Reisa fimm íbúða raðhús
Búseti hefur látið hanna fimm glæsileg raðhús á reitnum. Ístak sér um byggingu húsanna í samstarfi við aðra verktaka. Raðhúsin verða einnig fyrsta Svansvottaða nýbyggingarverkefnið sem Ístak stendur að. Það eru M11 arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnun raðhúsanna sem Búseti byggir.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, tók ásamt Bjarna Þór Þórólfssyni, framkvæmdastjóra Búseta, stjórn félagsins og fulltrúum Ístaks fyrstu skóflustunguna.
„Við erum ákaflega stolt af því að sjá hvernig húsbyggjendur hafa kosið að byggja umhverfisvænt vegna hvatningar bæjaryfirvalda að ívilna þeim sem það kjósa, “ segir hann. „Ég óska Búseta til hamingju og hlakka til að sjá húsið rísa.“
Búseta-íbúðum fjölgar í bænum
Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir það sanna ánægju að hefja framkvæmdir á Svansvottuðum raðhúsum við Axlarás í Hafnarfirði.
„Húsin eru einmitt af þeirri stærð og gerð sem félagsmenn okkar sækjast eftir. Í fasteignasafni Búseta er að finna allt frá minni íbúðum upp í rúmgóð sérbýli. Það er einkar ánægjulegt fyrir Búseta að fjölga íbúðum í Hafnarfirði,“ segir hann.
„Mikil eftirspurn skapast ávallt þegar félagið auglýsir íbúðir í bæjarfélaginu. Íbúðirnar sem Búseti á nú þegar í Hafnarfirði eru meðal annars í Birkihlíð, Bæjarholti, Þrastarási, Blikaási, Engjahlíð og Suðurhvammi. Búseti leggur mikið upp úr sjálfbærni og kann að meta þá hvatningu sem felst í ívilnun bæjaryfirvalda til þeirra sem vilja byggja vottaðar byggingar.“
Svansvottað í Hafnarfirði
Ár er frá því að fyrsta húsnæðið fékk Svansvottun í Hafnarfirði. Það var fjölbýlishúsið að Drangaskarði 11 og Hádeigsskarði 20. Bærinn endurgreiðir að hluta andvirði lóða sé byggt umhverfisvænt íbúum Hafnarfjarðar til heilla. Það hefur verið verktökum hvatning og hrint fjölda umhverfisvænna verkefna af stað.
Afsláttur af byggingarréttargjaldi vegna umhverfisvottunar (Svansvottun, Breeam vottun eða sambærilegt):
Einbýlishús 10% afsláttur af byggingarréttargjaldi.
Rað-par-keðjuhús 7,5% afsláttur af byggingarréttargjaldi.
Fjölbýlishús 5% afsláttur af byggingarréttargjaldi.
Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd og á yfir 40 ára farsæla sögu. Á vef félagsins segir að slík félög séu í eigu allra félagsmanna og jafnan opin öllum óháð aldri og búsetu. Í dag telur fasteignasafn Búseta um 1.500 íbúðir og í þeim búa hátt í 4.000 manns, en síðustu sex ár hafa um 700 íbúðir bæst við safnið. Á síðasta ári bættust um 100 íbúðir við fasteignasafn Búseta. Félagsmenn í Búseta eru um 6.500 talsins.
En hvað þýðir að Svansvotta? „Meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur,“ segir á vefnum Svanurinn.is
Heimild: Hafnarfjordur.is