Home Fréttir Í fréttum Forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum gerður upp fyrir 609 milljónir

Forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum gerður upp fyrir 609 milljónir

62
0
Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, tekur á móti Zelensky Úkraínuforseta í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum. Bústaðurinn var tekin í notkun síðasta sumar eftir viðgerðir og framkvæmdir upp á 609 milljónir. RÚV – Ragnar Visage

Framkvæmdir og viðgerðir á forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum kostuðu 609 milljónir. Þegar framkvæmdir hófust haustið 2021 áttu þær aðeins að standa í nokkra mánuði – þeim lauk ekki fyrr en síðasta sumar.

Sumarbústaður forsætisráðherra á Þingvöllum hefur verið notaður þegar leiðtogar ríkisstjórnarinnar taka á móti tignum gestum. Þegar Angela Merkel kom hingað til lands 2019 tók Katrín Jakobsdóttir á móti henni í forsætisráðherrabústaðnum og þegar Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, bauð Volodomyr Zelenski, forseta Úkraínu, velkominn síðasta síðasta haust gerði hann það í forsætisráðherrabústaðnum.

Ekki bara fyrir tignarmenni heldur líka bústaður til einkanota

Þegar rýnt er í þær fáu myndir sem til eru innan úr bústaðnum má glöggt sjá að húsgögnin hafa verið valin af kostgæfni. Sófarnir og stólarnir eru hönnunarvörur sem fást meðal annars í Epal sem og borðið fyrir miðju myndarinnar.
Flickr – Forsætisráðuneytið

Bústaðurinn hefur einnig verið notaður þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar vilja vinnufrið, stinga saman nefjum og snúa bökum saman.

Þegar fundur ráðherra ríkisstjórnarinnar var haldinn í forsætisráðherrabústaðnum í byrjun árs var þess sérstaklega gætt að fjölmiðlar fengju ekki að fara of nærri, þeir gátu aðeins myndað ráðherra og aðstoðarmenn þeirra í gegnum glugga. Og þegar Spegillinn fór þess á leit að taka myndir innan úr bústaðnum tók forsætisráðuneytið fálega í það, vísaði til öryggismála og að þetta væri bústaður forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin hélt vinnufund í byrjun árs til að þétta raðirnar fyrir komandi átök.
RÚV – Skjáskot

Engar sérstakar reglur gilda um notkun bústaðarins, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu geta forsætisráðherrar notað bústaðinn til einkaerinda, bæði Kristrún Frostadóttir og Bjarni Benediktsson hafa gert það, en hann er aðallega notaður sem móttökustaður fyrir þá erlendu gesti sem hingað koma.

Fúinn og illa farinn
Þeir sem hafa komið inn í bústaðinn hafa veitt því eftirtekt hversu veglegur hann er orðinn – sem er ekkert skrýtið, hann hefur tekið stakkaskiptum frá því að viðgerðir hófust fyrir tæpum fjórum árum.

Skjáskot af frétt Morgunblaðsins frá því í október 2021 þegar framkvæmdir hófust. Þá var gert ráð fyrir að þær stæðu í nokkra mánuði.
Skjáskot – Morgunblaðið/Tímarit.is

Spegillinn sendi fyrirspurn á forsætisráðuneytið til að spyrjast fyrir um hvað þessar framkvæmdir á sumarbústað forsætisráðherra hefðu kostað og hvað hefði verið gert. Heildarupphæðin nemur 608 milljónum. Þegar framkvæmdir hófust haustið 2021 var haft eftir skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu að þær ættu að standa í nokkra mánuði en þegar yfir lauk stóðu þær í nærri þrjú ár.

Framkvæmdunum var skipt í tvo hluta; annars vegar viðgerð á þaki og svo endurbætur innandyra. Einn verktaki hafði umsjón með þakviðgerðunum, annar sá um endurbætur innandyra. Þeir voru síðan með undirverktaka á sínum snærum; blikkara, rafvirkja, pípara, múrara og blikksmið. Samkvæmt svari Framkvæmdasýslu ríkiseigna við fyrirspurn Spegilsins var misjafnt hver fjöldi iðnaðarmanna var; allt frá tveimur upp í tólf ef mikið lá við.

Löng hefð er fyrir því að forsætisráðherra hafi bústað til einkaafnota og opinberra gestamóttaka.
RÚV Anton Brink – Anton Brink RÚV

Allar framkvæmdir voru boðnar út; samkvæmt kostnaðaráætlun fyrir þakið var gert ráð fyrir 60 milljónum í kostnað og kostnaðaráætlun fyrir endurbætur innandyra hljóðaði upp á 110 milljónir. Þegar tilboð voru opnuð reyndist hagstæðasta tilboðið í þakið vera upp á 59 milljónir en hagstæðasta tilboðið í framkvæmdirnar innandyra upp á 117 milljónir – sjö milljónum yfir kostnaðaráætlun.

Skýli byggt yfir bústaðinn
Í svari forsætisráðuneytisins kemur fram að húsið hafi verið afar illa farið þegar ákveðið var að ráðast í þessar framkvæmdir; innréttingar fúnar, aðstöðu allri ábótavant og ítrekað lekið frá þaki og gluggum. Fyrstu viðgerðir hófust í haustið 2021 og kostnaður við þær nam fimmtíu og níu og hálfri milljón.

Byggt var skýli yfir allan bæinn til að framkvæmdir yrðu ekki of háðar veðráttu, byggingarefni rifin og þeim fargað sem og pappa, borðaklæðningu og einangrun.

Bjarni Benediktsson notaði nýuppgerðan bústaðinn til að taka á móti erlendum gestum. Hér situr hann ásamt Ingrida Šimonytė, forsætisráðherra Litáens. Þegar erlend fyrirmenni koma verður þeim væntanlega boðið þangað.
Flickr – Forsætisráðuneytið

Í febrúar árið eftir var hafist handa við að lagfæra loft í risi og þá komu í ljós miklar skemmdir; fúi og mygla en líka asbestklæðning sem þurfti að fjarlægja og farga samkvæmt kúnstarinnar reglum. Fjarlægja þurfti alla glugga og útidyr beggja hæða hússins, og setja aftur í eftir umfangsmiklar viðgerðir. Allt lagnakerfi, vatnslagnir, raflagnir og frárennslislagnir voru endurnýjaðar, komið fyrir loftræstingu og varmadælu. Kostnaður við þessar framkvæmdir, sem voru viðameiri en þessi upptalning, námu 180 milljónum.

Allt gert í samráði við Minjastofnun
Dýrustu framkvæmdirnar fóru fram 2023 þegar loft á efri hæð voru einangruð og klædd og lokið við að ganga frá eldhúsi, snyrtingu og baðherbergjum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá voru timbur og flísar lagðar á gólf, gengið frá lögnum í veggi og loft og útveggir einangraðir og múrhúðaðir – kostnaður það árið nam 208 milljónum.

Framkvæmdum við bústaðinn lauk í júní á síðasta ári en þáverandi ríkisstjórn fékk fá tækifæri til að nýta sér hann. Kristrún Frostadóttir fer nú með lyklavöldin í hinum glæsilega bústað forsætisráðherra.
RÚV – Ragnar Visage

Framkvæmdunum lauk síðan daginn fyrir hátíðina í fyrra þegar þess var minnst að áttatíu ár voru liðin frá stofnun lýðveldisins. Þá var húsið málað að innan og tréverk lakkað, rafmagnstæki tengd og húsgögn og húsbúnaður keyptur og komið fyrir. Eftir að húsið var tekið í notkun var unnið að minniháttar lagfæringum og málun, frágangi á útisvæði og hleðslu sem er við aðkomu og í garði, en kostnaðurinn við þetta nam 161 milljón.

Inni í þessa tölu vantar loks kostnað vegna eftirlits og vinnu framkvæmdasýslu ríkiseigna upp á 37,6 milljónir. Forsætisráðuneytið tók skýrt fram í svari sínu að allar framkvæmdir hefðu verið unnar í góðri samvinnu við Minjastofnun Íslands.

Heimild: Ruv.is