Í kjölfar auglýsingar Múlaþings um miðjan desember síðastliðinn eftir samstarfsaðilum um endurbyggingu Gamla ríkisins að Hafnargötu í Seyðisfirði hefur nú verið samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið Úlfsstaði ehf.
Gamla ríkið svokallaða, sem byggt var árið 1918 sem verslunarhús, er einstök bygging að því leyti til að allar innréttingar innandyra voru á þeim tíma fengnar úr Verslun Konráðs Hjálmarssonar á Mjóafirði sem byggð var fyrir aldamótin 1900. Hafa innréttingarnar að langmestu leyti haldið sér allar götur síðan nær óbreyttar. Bæði ytra byrði hússins sem og innréttingar í gamla verslunarrýminu á fyrstu hæð njóta friðunar
Það var af þeirri ástæðu sem Múlaþing setti í auglýsingu sinni skýrar skorður við hvernig kaup og endurbygging færi fram. Færa þarf bygginguna á nýjan stað en þó innan sömu lóðar og það stendur á í dag. Vegna þess þarf að reisa nýjan húsgrunn og kjallara auk þess að færa til lagnir.
Kaupandinn mun njóta allt að hundrað milljóna króna greiðslu fyrir færslu hússins og endurgerð í samræmi við samning sem gerður var á sínum tíma milli Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ríkissjóðs og Minjaverndar.
Ríkið gaf Seyðisfjarðarbæ eignina árið 2020 sem svo fluttist til Múlaþings við sameiningu sveitarfélaganna síðar það sama ár. Greiðslur Múlaþings til kaupandans munu fara eftir framvindu verksins og bæði sveitarfélagið og Minjavernd munu hafa eftirlit með framkvæmdunum.
Í samningnum er ennfremur gerð krafa um að öllum endubótum á húsnæðinu verði að fullu lokið innan þriggja ára frá undirritun kaupsamnings.
Heimild: Austurfrett.is