Íslenskur stjórnandi verklegra orkuframkvæmda á Grænlandi vonast til að Íslendingar hafi áhuga á taka þátt í þeim miklu virkjunarframkvæmdum sem framundan eru í landinu. Íslensk verktakafyrirtæki hafa til þessa reist fjórar af fimm vatnsaflsvirkjunum Grænlendinga.
Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þessi miklu verkefni sem framundan eru í þessu næsta nágrannalandi Íslendinga eftir að fjármálaráðherrar Danmerkur og Grænlands sömdu um það að danska ríkið ábyrgðist nauðsynlega lánsfjármögnun. Íslenskur verkfræðingur, Erlingur Jens Leifsson, hefur yfirumsjón með framkvæmdum fyrir hönd grænlenskra stjórnvalda.
„Við förum í forval núna í desember og svo verður boðið út í alverktöku. Ætli það verði ekki svona í mars á næsta ári sem við förum í það ferli,“ segir Erlingur, sem er yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, fyrirtækis grænlensku landsstjórnarinnar.
Fyrir tólf árum sýndi Stöð 2 frá virkjanaframkvæmdum við bæinn Ilulissat við Diskó-flóa. Þar reistu íslensk fyrirtæki undir forystu Ístaks 22 megavatta virkjun, sem var hönnuð frá grunni af íslenskum verkfræðistofum.
Þar voru aðstæður afar krefjandi, unnið í sífrera lengst norðan heimskautsbaugs, og þurfti að sigla að virkjunarsvæðinu um ísilagðan Diskó-flóa með öll aðföng, enda Grænland að mestu án vegakerfis. Aðstæður við Buksefjorden eru einnig krefjandi.
„Já, það er það. Þetta er má segja afskekkt. Það þarf að sigla slatta suður fyrir Nuuk og fara svo inn í landið. Þetta er bara á færi verktaka sem eru vanir að vinna við þessar aðstæður,“ segir Erlingur.
Og þar með teljast íslenskir verktakar sem reist hafa fjórar af fimm vatnsaflsvirkjunum Grænlands, en einnig skóla, flugvöll og höfn. Verkefnið núna er smíði tveggja nýrra virkjana upp á sextíu milljarða íslenskra króna.
-En heldurðu að Íslendingar muni koma að þessu, fyrir utan þig?
„Ja… – Ístak náttúrlega byggði virkjunina upp í Sisimiut og virkjunina í Ilulissat. Þannig að þeir hafa reynsluna. Ég vona að þeir hafi áhuga.
Og við að sjálfsögðu búumst við því að það komi einhverjir fleiri sem vilji fá að taka þátt,“ svarar Erlingur.
Heimild: Visir.is