Home Fréttir Í fréttum Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar

Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar

34
0
Frá gosstöðvum nærri Grindavík 15. janúar síðastliðinn.

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í máli sem fyrrum leigjandi íbúðar í Grindavík beindi til nefndarinnar. Leigjandinn sagði í kæru sinni að leigusalinn hafi haldið eftir tryggingunni vegna geymslu á innbúi leigjandans eftir rýmingu bæjarins í nóvember 2023.

<>

Hafði leigusalinn sömuleiðis notað tryggingaféð til að ganga upp í greiðslu verðbóta á leigu en tvennum sögum fer af því í úrskurðinum hvort þær hafi átt að gilda um tímabilið eftir rýmingu bæjarins og fram til þess að leigjandinn tæmdi íbúðina eða þær hafi verið vegna leigu sem þegar hefði verið greidd. Nefndin úrskurðaði leigjandanum í hag.

Leigjandinn, sem er kona, sagði í kæru sinni að hún hefði leigt íbúðina frá maí 2021 fram að hamförunum 10. nóvember 2023, þegar bærinn var týmdur. Við uppgjör tryggingarfjárins í byrjun mars 2024 hafi leigusalinn, sem er karlmaður, gert kröfu sem hafi numið verðbótum á umsamda leigufjárhæð fyrir hluta nóvember 2023, desember 2023, janúar og febrúar 2024 og 30 prósent af leigufjárhæðinni fyrir sömu mánuði vegna geymslu á innbúi konunnar. Sagði koan að henni hafi verið ómögulegt að nálgast innbúið sökum hamfaranna.

Þyrfti ekki að borga

Konan sagði leigusalann hafa sagt við sig í símtali í byrjun desember 2023 að hún þyrfti ekki að borga leigu á meðan óvissa stæði yfir um hvort hægt yrði að dvelja í Grindavík og að þau yrðu í sambandi um greiðslur milli mánaða yrði mögulegt að komast heim aftur. Þessar greiðslur hafi leigusalinn hins vegar dregið af tryggingarfénu, en hann hafi aðeins endurgreitt hluta þess eða 17.433 krónu, án vaxta. Hún hafi endurgreitt fjárhæðina samdægurs enda hafi lokauppgjörið verið rangt.

Í andsvörum sínum sagði leigusalinn að hann hefði tjáð konunni að hann myndi ekki rukka um leigu fyrir desember. Í lok nóvember hafi hann hringt í hana og sagt að nú mætti fólk dvelja í Grindavík. Hann hafi þó ætlað að bíða með að senda reikning og sjá hvað yrði, en hygðist hún aftur á móti ekki búa áfram í Grindavík væri gott að hún tæmdi íbúðina. Hún hafi sagst vera erlendis og gæti ekki tæmt íbúðina og að hún hefði ekki tekið ákvörðun um hvort hún hafi ætlað að búa áfram í Grindavík.

Leigusalinn sagði að eftir að hann hefði talað við konuna í janúar, tveimur dögum eftir að eldgos hófst, hefði hún enn ekki verið viss um hvað hún hafi ætlað að gera. Hann hafi þá sagt best að hún myndi tæma íbúðina sem fyrst. Í febrúar hafi hann ítrekað beiðnina og loks sagt leigusamningnum upp.

Konan hafi tilkynnt honum í lok þess mánaðar að hún væri að tæma íbúðina og um leið óskað eftir endurgreiðslu á tryggingunni sem hann hafi sagt sjálfsagt mál. Þá hafi konan sagt að hún hefði einungis verið í íbúðinni til 10. nóvember. Hann hafi ekki innheimt leigu fyrir tímabilið nóvember til febrúar. Á sama tíma hafi hann þurft að greiða allan kostnað sem fylgi húseignum án þess að hafa fengið krónu upp í það. Konan hafi haft húsgögn sín í íbúðinni sem hún hefði annars þurft að finna aðra geymslu fyrir.

Fordómar

Í andsvörum sínum sagðist leigusalinn enn fremur hafa sagt við konuna að hann hafi ætlað sér að vísitölutengja leiguna og hún hafi í raun átt að vera hærri. Konan hafi hins vegar krafist endurgreiðslu á hluta leigunnar vegna nóvember mánaðar 2023. Hann hafi þá farið fram á að hún undirritaði yfirlýsingu þess efnis að þau væru alveg skilin að skiptum við greiðslu tryggingarinnar í samræmi við það sem þau hafi rætt. Hún hafi tekið vel í það í fyrstu en nokkrum dögum seinna hafi borist bréf frá henni þar sem fram hafi komið fordómar í hans garð.

Þegar ljóst hafi verið að konan hafi ætlað að halda því til streitu að fá hluta nóvember endurgreiddan hafi hann á móti reiknað út skuld hennar vegna vantaldra vísitöluhækkana á leiguna frá maí 2022 til febrúar 2023, um 75.000 krónur. Síðan leigu fyrir húsbúnaðinn frá 10. nóvember 2023 til febrúar 2024. Honum hafi þótt sanngjarnt að hún greiddi 30 prósent af leigunni fyrir það. Mismuninn á þessu vangreidda leigugjaldi og tryggingunni hafi hann endurgreitt en fjárhæðin hafi numið 17.433 krónum.

Ekki hægt að rukka leigu í náttúruhamförum

Konan svaraði þessum andsvörum leigusalans á þann hátt að eftir 10. nóvember hafi enginn möguleiki verið á því að flytja eigur úr Grindavík í snarhasti enda aðgangur að bænum skertur. Konan sagði það ekki rétt að hún hafi haldið leigusalanum í óvissu um hvað hún ætlaði sér að gera. Hún hafi ætlað sér að búa áfram í bænum en skipt um skoðun í janúar og aldrei hafi verið rætt þeirra á milli að hún yrði að tæma íbúðina sem fyrst.

Konan minnti enn fremur á að það væri ekki hægt að krefja fólk um leigu fyrir húsnæði sem væri óíbúðarhægft vegna náttúruhamfara og óleyfilegt væri að reikna eftir á og innheimta vísitöluhækkanir og leigu fyrir geymslu á húsgögnum. Það hefði Kærunefnd húsamála áður úrskurðað um.

Í seinni andsvörum sínum sagði leigusalinn meðal annars að hann gæti ekki einn borið ábyrgð á því að ekki hafi verið heimilt að dvelja í íbúðinni og að leigusamningur hafi verið í gildi.

Nýtti ekki heimild

Í niðurstöðu sinni segir Kærunefnd húsamála að leigusalinn hafi samkvæmt leigusamningi haft heimild til að vísitölutengja leiguna en af því hann hafi ekki kosið að gera það fyrr en eftir á hafi leigjandinn mátt treysta því að við hverja leigugreiðslu án verðbóta væri um fullnaðargreiðslu að ræða. Þar af leiðandi hafi leigusalanum verið óheimilt að nota tryggingarféð til að láta leigjandann greiða verðbætur eftir á eins og hann hafi gert.

Nefndin segir hann einnig hafa skort heimild til halda hluta tryggingarinnar eftir sem greiðslu fyrir geymslu á búslóð leigjandans enda sé trygging samkvæmt húsaleigulögum ætluð til greiðslu á vangoldinni leigu eða tjóni á leiguhúsnæðinu.

Leigusalinn þarf því að endurgreiða leigjandanum trygginguna, 180.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta.

Heimild: Dv.is