Home Fréttir Í fréttum Stækka höfnina með efni úr Fjarðarheiðargöngum

Stækka höfnina með efni úr Fjarðarheiðargöngum

90
0
Fyrirhuguð stækkun hafnarinnar á Seyðisfirði. HÖNNUN/VEGAGERÐIN

Auka á athafnarými hafnarinnar á Seyðisfirði með greiðu aðgengi að hafnarkanti og tryggja öruggt svæði fyrir uppbyggingu Tækniminjasafns Austurlands.

<>

Um tvö þúsund rúmmetra af grjóti auk annars jarðefnis þarf í framkvæmdina.

„Meginmarkmið þessarar breytingar er að auka athafnarými hafnarinnar með greiðu aðgengi að hafnarkanti og tryggja öruggt svæði fyrir uppbyggingu Tækniminjasafns Austurlands,“ segir í greinargerð verkfræðistofunnar Eflu með deiliskipulagstillögu sem nú liggur fyrir í Múlaþingi og varðar stækkun hafnarinnar á Seyðisfirði.

„Áformað er að stækka höfnina með gerð nýs 280 m stálþilsviðlegukants, ásamt því að breyta staðsetningu á smábátahöfninni. Núverandi viðlegukantur Strandarbakka er um 170 metrar og verður hann framlengdur um 280 metra í heildina.

Fyrstu 200 metrarnir koma í beinu framhaldi af núverandi viðlegukanti til norðaustur. Þar fyrir utan kemur 80 metra viðlegukantur sem sveigir í átt að landi til að skýla smábátahöfninni. Þannig að ysti hluti bryggjunnar mun hafa viðlegukant beggja vegna,“ segir í greinargerð Eflu.

Smábátahöfn með flotbryggju

Kemur fram að dýpið við utanverða viðlegukantana verði tíu metrar en að innanverðu sex metrar á 49 metra löngum kafla. Innan við verði smábátahöfn með flotbryggju með plássi fyrir 20 til 24 hefðbundna strandveiðibáta og sex til átta skútur eða stærri báta.

„Dýpið í smábátahöfninni verður 2,5 metrar og verður það jafnað út með því að hliðra til efni á hafsbotni. Ekkert efni verður fjarlægt af hafsbotni. Heildarefnisþörf stækkunar er um 149.000 rúmmetrar og nær framkvæmdasvæðið yfir um þrjá hektara. Sökum þess hve aðdjúpt er þarf einnig að fylla aðeins fyrir framan viðlegukantinn svo að stálþil fái nógu góða festu,“ segir í greinargerðinni.

Horft til Fjarðarheiðaganga

Fyrrnefndir 149 þúsund rúmmetrar af jarðefni sem þarf skiptast þannig að 135 þúsund rúmmetra þarf í landfyllingu bak við stálþil og 14 þúsund rúmmetra í sjófyllingu fyrir framan stálþil.

„Í framkvæmdina verða nýtt jarðvegsefni úr Fjarðarheiðagöngum en einnig verður efni úr núverandi grjótvarnargarði í smábátahöfninni endurnýtt að fullu við gerð á nýjum grjótvörnum. Um 2.000 rúmmetra af grjóti, allt frá smágrýti og upp í 3-4 tonna grjót, þarf til viðbótar í grjótvarnargarðana,“ segir í greinargerðinni.

Skaganáma til vara

Eins og kunnugt er hafa Fjarðarheiðargöng ekki verið fastsett á dagskrá. Segir því í greinargerðinni að ef efnið fáist ekki við gerð ganganna verði það sótt í Skaganámu sem er rétt innan við þéttbýlið á Seyðisfirði.

„Í Skaganámu er gert ráð fyrir efnistöku á allt að 350.000 rúmmetrum og alls er talið að umframefni úr Fjarðarheiðagöngum (Seyðisfjarðar megin) verði á bilinu 360.000 til 420.000 rúmmetrar. Stækkun hafnarinnar er háð efnisflutningum úr Fjarðarheiðargöngum en reiknað er með að hafnarframkvæmdin verði unnin í einum áfanga.“

Opna á skemmtiferðaskip

Þá segir að með stækkun á hafnarsvæðinu opnist möguleikar á að taka á móti skemmtiferðaskipum og fleiri strandveiðibátum eða öðrum smærri bátum. „Einnig opnast möguleikar í framtíðinni fyrir að landtengja skemmtiferðaskip sem leggjast upp að bryggju,“ er bent á.

Skipulagssvæðið er sagt vera meira og minna á manngerðri landfyllingu sem hafi að stórum hluta verið gerð á árunum um aldamótin 2000. Í gegnum tíðina hafi verið mikið rask á svæðinu, bæði vegna framkvæmda við höfnina og í tengslum við skriðuföllin árið 2020.

Vilja hafnsækna starfsemi

Samhliða þessari deiliskipulagsbreytingu er unnið að breytingu á aðalskipulagi Seyðisfjarðar. Sú breyting felst í því að stækka hafnarsvæðið með því að lengja hafnarkantinn við Strandarbakka, færa núverandi smábátahöfn og skapa meira landrými með landfyllingu fyrir ýmiss konar hafnsækna starfsemi.

Í þeim kafla greinargerðarinnar þar sem fjallað er um niðurstöðu og mótvægisaðgerðir segir að sveitarfélagið Múlaþing vilji skapa umgjörð á hafnarsvæðinu sem dragi til sín hafnsækna starfsemi.

Áformin séu í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem markmið sé að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna sem koma til Seyðisfjarðar með ferjunni eða öðrum skemmtiferðaskipum.

Heimild: Vb.is