Markmiðið er að lækka mánaðarlega greiðslubyrði, einkum hjá fyrstu kaupendum, en útfærslan mun í reynd ná til allra lántaka.
Danska ríkisstjórnin hyggst leyfa afborgun á íbúðalánum í allt að 40 ár sem hluta af víðtækum húsnæðisaðgerðum fyrir sveitarstjórnakosningar 18. nóvember.
Markmiðið er að lækka mánaðarlega greiðslubyrði, einkum hjá fyrstu kaupendum, en útfærslan mun í reynd ná til allra lántaka.
Samkvæmt drögunum verða 40 ára lán byggð á 30 ára skuldabréfum. Það þýðir að mánaðarleg greiðsla verður lægri en í 30 ára láni en eftirstöðvar verða þó til staðar við lok lánstímans ef lánið er ekki greitt hraðar niður.
Menningar- og viðskiptaráðherrann Jakob Engel-Schmidt segir að með þessu fái fyrstu kaupendur „forskot“ inn á markaðinn.
„Lægri greiðslubyrði núna en hækkar verð til lengri tíma“
Carl-Johan Dalgaard, prófessor í hagfræði við Kaupmannahafnarháskóla, telur að aðgerðin muni ekki ná markmiði sínu.
Reynslan bendi til þess að lengri lánstímar ýti undir hærra húsnæðisverð, þannig að heildargreiðslubyrði breytist lítið til lengri tíma.
Hann óttast ekki bólu í kjölfarið, en segir að aukin verðmæti renni til þeirra sem þegar eiga.
Núverandi eigendur hagnist á hækkandi verði á meðan innganga nýrra kaupenda verður erfiðari.
Ríkisstjórnin hyggst jafnframt breyta reglum um greiðslumat.
Tillaga liggur fyrir um að lánveitendur geti metið tekjur til framtíðar, til dæmis hjá meistaranemum, í stað þess að styðjast eingöngu við núverandi tekjur. Markmiðið er að gera fleiri hæfa til láns, samhliða lengri afborgun.
Aðgerðirnar koma í skugga mikillar hækkunar íbúðaverðs í höfuðborginni.
Verð á íbúðum í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 20% á einu ári og húsnæði er samkvæmt könnunum stærsta kosningamálið þar.
Ríkisstjórnin ætlar að hækka kostnaðarþak við byggingu félagslegs húsnæðis. Kostnaðarþakið er nú um 25 þúsund danskar krónur á m² á höfuðborgarsvæðinu, sem samvarar um 490 þúsund íslenskar krónur á m² , til að flýta verkefnum.
Þá á að breyta skipulagslögum þannig að sveitarfélög geti krafist allt að 25% eignaríbúða í nýjum íbúðahverfum til að auka framboð eigendaíbúða, sérstaklega í Kaupmannahöfn.
Heimild: Vb.is












