Home Fréttir Í fréttum „Öllum ljóst að Ölfus­ár­brú verði að rísa“

„Öllum ljóst að Ölfus­ár­brú verði að rísa“

46
0
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Innviðaráðherra segist vongóð um að hægt verði að klára síðustu skref í átt að verksamningi um Ölfusárbrú á næstu dögum og vikum. Brúin verði að rísa sem allra fyrst.

<>

Í kvöldfréttum okkar í gær sagði fulltrúi Vegagerðarinnar allt til reiðu hjá stofnuninni til að skrifa undir verksamning um Ölfusárbrú, sem upphaflega átti að gera í júlí, en beðið væri eftir ráðuneytunum.

Innviðaráðherra segist hafa átt í miklum samskiptum við fjármálaráðherra vegna málsins.

„Næsta skref er að hitta umhverfis- og samgöngunefnd og fjárlaganefnd þingsins. Það skiptir miklu máli að vera í þéttu samstarfi við þingið um þessi skref.

En ég held að okkur sé öllum ljóst að Ölfusárbrú verði að rísa, hana verður að byggja. Þetta er ein mikilvægasta samgönguframkvæmd samtímans. Ég vonast til að við sjáum það hreyfast á næstu dögum og vikum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Kostnaður við nýja brú er áætlaður um fjórtán milljarðar króna, en hún verður fjármögnuð með veggjöldum, en sérfræðingar ríkisábyrgðarsjóðs efast um að dæmið gangi upp.

„Þetta eru útreikningar sem liggja til grundvallar og margar breytur inn í framtíðina bæði er varðar notkun, gjaldtöku og svo framvegis. Það eru ýmis sjónarmið sem þarf að horfa til þar. En við teljum að við höfum leið til að leysa það og munum kynna fyrir nefndum þingsins á næstu dögum.“

Bæjarstjóri Árborgar sagði tafir á framkvæmdinni ekki góðar fyrir sveitarfélagið eða svæðin í kring.

„Ég er bara sammála því,“ segir Svandís.

„Við eigum ekki að bíða lengur eftir því að byrja að byggja Ölfusárbrú.“

Heimild: Visir.is