Vinnumansal er ólíðandi og verður að uppræta en eftirlit er alltof lítið, að mati verkalýðsfélaga. Framkvæmdastjóra starfsmannaleigu blöskrar að sjá meðferðina sem sumt starfsfólk þarf að þola.
Framkvæmdastjóra starfsmannaleigunnar NDP blöskrar að sjá aðbúnaðinn sem sumir starfsmenn starfsmannaleiga þurfa að búa við hér á landi. Hann telur eftirlit ekki nægt.
Hjá starfsmannaleigunni NDP starfa 30 manns þegar mest er og þá aðallega í málmiðnaði og viðhaldi á framleiðslubúnaði en stöku sinnum byggingariðnaði. Öll verkefni starfsmannaleigunnar eru á Austurlandi og Húsavík.
Á þriðjudag fjallaði Kveikur um starfsmannaleigur. Þar mátti sjá að víða væri pottur brotinn og starfsmenn oft snuðaðir um laun eða byggju við óviðunandi aðstæður.
Þörf á bransanum en óþarfi að koma illa fram við fólk
Jón Páll Helgason, framkvæmdastjóri NDP, segir sér og sínum viðskiptavinum hrylla við að sjá meðferðina sem sumt starfsfólk þarf að þola. „Það er þörf á þessum bransa en það er engin þörf á því að koma illa við fólk,“ segir hann.
„Mér þykir erfitt að starfa í bransa sem hefur þetta orðspor á sér og ég hugsa oft um að sleppa því. Þetta getur verið mjög skemmtileg vinna, fjölbreytt fólk og skemmtilegir viðskiptavinir en almenningsálit tekur auðvitað á mann.“
Ekki boðlegt að fólk búi í „rottuholum“
Í Kveik var tekið dæmi um starfsmann sem fékk 2230 krónur á tímann í dagvinnu. Jón Páll segir lágmarksgreiðslu hjá NDP vera um 3000 krónur á tímann. „Við drögum engan kostnað af starfsfólki.
Mér finnst mjög hallærislegt að draga frá einhvern tilgerðan kostnað eins og maður sá í umfjölluninni og hvað þá að láta fólk búa í einhverjum, ég ætla að fá að segja það, rottuholum,“ segir Jón Páll.
Mikið sé lagt upp úr því að starfsfólk dvelji í viðunandi húsnæði. Þá sé séð til þess að engir þurfi að deila herbergi þó vissulega deili einhverjir húsnæði. „Versti kosturinn sem er þó bara mjög flottur er gamalt hótel sem var keypt fyrir austan og búið að útbúa mjög vel.“
Heimild: Ruv.is