Home Fréttir Í fréttum Vinnumansal og misneyting líka á landsbyggðinni

Vinnumansal og misneyting líka á landsbyggðinni

8
0
Finnbogi Sveinbjörnsson er formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. RÚV – Jóhannes Jónsson

Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir vinnumansal eða misneytingu á vinnuafli uppgötvast í hverri eftirlitsferð. Ljóst sé að ábyrgðin liggi hjá ríkinu sem skorið hefur verulega niður í starfsemi mikilvægra eftirlitsstofnana.

<>

Verkalýðsfélög á landsbyggðinni gagnrýna að bæði ríki og sveitarfélög semji við fyrirtæki án þess að hafa nokkuð eftirlit með kjörum eða aðbúnaði starfsfólks. Reglulega koma félögin upp um misneytingu á vinnuafli.

Í þætti Kveiks á þriðjudag var spjótunum beint að vinnumansali og misneytingu á höfuðborgarsvæðinu en það er ekki þar með sagt að slíkt sé ekki vandamál víðar.

Í kjölfar þáttarins sendu sjö verkalýðs- og stéttarfélög á Vestur- og Suðurlandi frá sér ályktun þar sem fram kemur að reglulega fái þau mál inn á sitt borð þar sem brotið er gegn erlendu vinnuafli.

Stéttarfélögin sem standa að baki ályktuninni eru Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Aldan stéttarfélag, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Báran stéttarfélag og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.

Aðallega brotið á starfsfólki í byggingariðnaði og ferðaþjónustu
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir málin yfirleitt koma upp við reglubundið eftirlit verkalýðsfélaganna og sé það einna helst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

„Stundum eru ekki til ráðningarsamningar, fólk er jafnvel ekki með launaseðla,“ segir hann. Í einhverjum tilfellum fái starfsfólk greitt minna en lágmarkslaun „og það er verið að stela þeim líka,“ segir Finnbogi.

Nokkuð sé um að verktakar sveitarfélaga úti á landi nýti sér starfsmannaleigur. Skýrari innkaupareglur vanti svo verkkaupinn, sveitarfélögin, viti við hverja þau eru að skipta við.

Miskunnarlaus niðurskurður sem kemur niður á eftirliti
Í gær var haldin ráðstefna um vinnumansal í Hörpu. Þar voru meðal annars fulltrúar verkalýðsfélaga, Samtaka atvinnulífsins og lögreglu. Finnbogi segir ljóst hvar ábyrgðin liggi.

„Við náttúrulega viljum byrja að vísa ábyrgðinni algerlega á stjórnvöld í landinu. Það hefur verið farið í miskunnarlausan niðurskurð á öllum eftirlitsstofnunum sem geta beitt viðurlögum,“ segir Finnbogi.

Hann bendir á að stéttarfélögin hafi ekki völd til að beita viðurlögum. Það séu stofnanir á borð við Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit ríkisins og ríkisskattstjóri.

„Þessar stofnanir hafa allar orðið fyrir niðurskurði, svo ég tali ekki um lögregluembætti landsins. Það er ekki mannskapur til að fylgja eftir brotastarfseminni og taka á henni.“

Heimild: Ruv.is