Stofnendur og lykilstarfsmenn Rafholts munu halda eftir 30% eignarhlut í rafverktakafyrirtækinu.
Framtakssjóðurinn Aldir I slhf. hefur gengið frá kaupum á 70% hlut í rafverktakafyrirtækinu Rafholti ehf. Stofnendur og lykilstarfsmenn munu halda eftir 30% eignarhlut og starfa með sjóðnum að frekari uppbyggingu félagsins. KPMG var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum.
Rafholt, sem sérhæfir sig á sviði raflagna, er með um 140 starfsmenn. Velta félagsins hefur vaxið hratt á undan nam og nam tæplega 4 milljörðum króna í fyrra.
„Með tilkomu nýrra fjárfesta skapast tækifæri til að þróa fyrirtækið frekar í samvinnu við starfsfólk þess með það að markmiði að mæta sífellt auknum kröfum viðskiptavina um heildstæða og áreiðanlega þjónustu,“ segir í tilkynningu Rafholts og Alda.
Umtalsverður vöxtur hafi verið á raflagnamarkaði og horfur á að eftirspurn muni halda áfram að aukast á næstu árum.
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um starfsemi og sögu Rafholts fyrir rúmu ári síðan í tilefni af blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.
„Það er mjög ánægjulegt að fá Aldir inn sem leiðandi hluthafa í Rafholti. Fjárfesting sjóðsins er mikil viðurkenning fyrir félagið og markar spennandi kaflaskil í sögu þess, þar sem lagður er grunnur að áframhaldandi vexti og aukinni þjónustu við viðskiptavini,“ segir Helgi Rafnsson, Framkvæmdastjóri Rafholts.
Aldir I er ríflega 9 milljarða króna framtakssjóður sem fjárfestir í fyrirtækjum með það fyrir augum að styrkja og bæta rekstur þeirra. Sjóðurinn er í eigu breiðs hóps stofnana- og einkafjárfesta en rekstur hans er í höndum sjóðastýringarfélagsins Aldir ehf.
Aldir ehf. var stofnað í byrjun síðasta árs af Arnari Ragnarssyni, Heiðari Inga Ólafssyni og Ara Ólafssyni, sjóðstjórum félagsins, sem leiddu áður sérhæfðar fjárfestingar hjá Stefni. Auk þeirra eru Aldir ehf. í eigu Heiðars Guðjónssonar stjórnarformanns, Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar.
„Rafholt er framsækið fyrirtæki sem er þekkt fyrir fagleg vinnubrögð. Við teljum mikil tækifæri framundan á markaðnum og hlökkum til samstarfsins við stofnendur og starfsmenn félagsins,” segir Heiðar Ingi hjá Öldum.
Heimild: Vb.is