Home Fréttir Í fréttum Hvaða vegi á að laga á næstu fimm árum?

Hvaða vegi á að laga á næstu fimm árum?

11
0
Með nýrri samgönguáætlun vill ríkisstjórnin taka á innviðaskuldinni, meðal annars með auknu fjármagni í viðhald og vetrarþjónustu. Á fyrstu fimm árum áætlunarinnar kennir ýmissa grasa. – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Á næstu fimm árum á að ljúka stórum framkvæmdum við Hornafjarðarveg, Ölfusárbrú og Vestfjarðaveg en líka að ráðast í framkvæmdir á Vatnsnesvegi, Öxi og Bíldudalsvegi. Ýmsar langþráðar vegaframkvæmdir færast þó aftar á listann.

Á nýrri samgönguáætlun sem kynnt var í vikunni er fleira að finna en forgangsröðun jarðganga. Á næstu fimmtán árum vill ríkisstjórnin ráðast í vegaframkvæmdir um allt land, auka fjármagn í viðhald vega og vetrarþjónustu, efla strandsiglingar til að hlífa vegum og stækka og efla hafnir víðs vegar um land.

Samgönguáætlun er í þremur stigum. Mesta athygli fá að vanda þau verk sem áætluð eru á næstu árum. Í vegaáætlun er tilgreint hvaða fjármagn fer í hvaða verk á næstu fimm árum.

Suðurland

Suðurland er greiðfærasti fjórðungurinn en umferð hefur aukist mikið samhliða vexti í ferðaþjónustu. Sunnlendingar fagna auknu fjármagni í viðhald vega. Á næstu árum stendur til að ljúka við nýja brú yfir Ölfusá, gera nýja brú yfir Þjórsá og endurbyggja Þjórsárdalsveg á kafla. Þá á að breikka Þrengslaveg um Skógarhlíðabrekkur.

Til stóð að ráðast fyrr í að færa veginn við Hveragerði enda er búið að skipuleggja íbúabyggð við gamla vegstæðið. Þá sakna margir þess að ekki sé ráðist hraðar í að fækka einbreiðum brúm á Suðurlandi.

Höfuðborgarsvæðið

Stærsta framkvæmdin kringum höfuðborgarsvæðið er án efa Sundabraut. Þá á að ljúka við framkvæmdir á Reykjanesbraut, gera undirgöng og hringtorg í Mosfellsdal og breikka hringveginn við Rauðavatn á leið á Suðurland.

Vesturland og Vestfirðir

Á Vesturlandi er því fagnað að Skógarstrandarvegur á Snæfellsnesi sé kominn á áætlun. Vegurinn er stofnvegur sem tengir Snæfellsnes og Dali en hann er malarvegur með sex einbreiðum brúm. Aukið fé í viðhald kemur sér að sama skapi vel.

Á Vestfjörðum á að ljúka framkvæmdum í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum og á Dynjandisheiði. Helstu tíðindin þar eru að Bíldudalsvegur inn Arnarfjörð, sem tengir Bíldudal við nýja veginn um Dynjandisheiði er kominn á áætlun. Sá er í dag malarvegur og ófær á vetrum.

Umdeild færsla á hringveginum við Borgarnes og breikkun Vesturlandsvegar í Borgarfirði er ekki á áætlun fyrr en á 2.-3. tímabili áætlunarinnar. Þá söknuðu margir þess að sjá ekki frekari framkvæmdir á Snæfellsnesi á fyrsta tímabili.

Veiðileysuháls á Ströndum er ekki á dagskrá fyrr en eftir 2030. Þá þurfa framkvæmdir á Flateyrarvegi og slitlag á Innstrandavegi jafnframt að bíða eitthvað áfram.

Norðurland

Á Norðurlandi á að ráðast í framkvæmdir á Vatnsnesvegi og leggja nýjar brýr yfir Skjálfandafljót. Þá verður lokið við veginn um Brekknaheiði sunnan við Þórshöfn.

Austurland

Á næstu fimm árum á að ráðast í fyrsta hluta framkvæmda um Suðurfjarðaveg á Austurlandi og bæta veginn um Öxi. Austfirðingar sakna frekari nýframkvæmda, ekki síst í ljósi þess að Fjarðarheiðargöng eru ekki fremst í forgangsröðun jarðganga. Á næsta ári fer stærstur hluti fjármagns í að ljúka við nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Ekki stendur til að ljúka við Suðurfjarðaveg fyrr en í síðasta hluta áætlunar og nýr vegur um Öxi verður ekki tilbúinn fyrr en eftir 2030.

Heimild: Ruv.is