Home Fréttir Í fréttum Hafnarbakkinn hefur lækkað um 40 sentimetra

Hafnarbakkinn hefur lækkað um 40 sentimetra

61
0
Sigurður Arnar Kristmundsson er hafnarstjóri í Grindavík. RÚV – Benedikt Sigurðsson

Hafnarbakkinn í Grindavík er siginn um allt að fjörutíu sentimetra þar sem mest er. Starfsmenn Vegagerðarinnar mældu hann út í gær og í framhaldinu verður ákveðið til hvaða ráðstafana verður gripið til að vernda mannvirki við höfnina.

<>

Hafnarbakkinn í Grindavík var mældur út í gær af starfsmönnum Vegagerðarinnar en hann hefur sigið um 40 sentímetra þar sem mest er.

Til stendur að ákveða til hvaða aðgerða skuli grípa svo verja megi mannvirki á hafnarsvæðinu: „Hjarta Grindavíkur slær hér. Þannig að það er alveg augljóst að það verður að beita öllum ráðum til þess að reyna að halda þessu öllu saman í góðu lagi,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri.

Búið er að kafa meðfram bryggjukantinum og Sigurður segir að engar skemmdir hafi sést þótt bryggjugólfið hafi sigið um allt að 40 sentimetra. Mest ríði á að verja mannvirki sem næst standi höfninni.

Til dæmis spennistöðvar fyrir rafmagn: „Vatn og rafmagn fara illa saman. Síðan eru það mannvirkin á miðgarðinum, þau gætu verið viðkvæm fyrir þessu.“ Sigurður segir að hækkun á öllum bryggjunum sé meiri háttar aðgerð. Hugsanlega sé best að fá eitt flóð og sjá til í ljósi þess til hvaða aðgerða sé best að grípa.

Heimild: Ruv.is