Home Fréttir Í fréttum Samið um byggingu tengivirkja á Bakka og Þeistareykjum

Samið um byggingu tengivirkja á Bakka og Þeistareykjum

120
0

Landsnet gekk í gær frá samningi að verðmæti 1,2 milljarðar króna vegna tengingar iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík við Þeistareykjavirkjun og raforkuflutningskerfið.

<>

„Þetta er ánægjulegur áfangi í þeim nýframkvæmdum sem við erum af fara af stað með á Norðausturlandi til að tengja Bakka við Þeistareykjavirkjun og virkjunina við meginflutningskerfið okkar í Kröflu. Samningar um byggingu nýs tengivirkis í Kröflu verður einnig tilbúinn fljótlega. Það er mikilvægt að þetta gangi allt vel þar sem gert er ráð fyrir að afhending raforku á Bakka geti hafist eigi síðar en 1. nóvember 2017,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Undir kostnaðaráætlun
Í framhaldi af útboði á dögunum var samið við fyrirtækin LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & sønner AS um jarðvinnu og byggingu húsa fyrir ný tengivirki Landsnets á Bakka og Þeistareykjum. Samkomulagið, sem undirritað var í dag af Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, og Ásgeiri Loftssyni, framkvæmdastjóra LNS Saga, hljóðar upp á 1,2 milljarða króna með virðisaukaskatti en kostnaðaráætlun Landsnets fyrir þessa tvo verkhluta var tæplega 1,5 milljarðar króna. Tilboð LNS Saga og Leonhard Nilsen & sønner voru þau einu sem bárust í byggingu tengivirkjanna tveggja.

Gert er ráð fyrir að jarðvinna vegna framkvæmdanna hefjist í júní á þessu ári en báðum verkhlutum skal vera að fullu lokið 15. september 2017.