Home Fréttir Í fréttum Skynsamlegra að Alþingi eignist eigið húsnæði

Skynsamlegra að Alþingi eignist eigið húsnæði

104
0
Teikning frá Guðjóni Samúelssyni

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, fagnar því að ríkisstjórnin styðji áform um að leysa húsnæðisvanda þingsins. Hann segir þó ekki tímabært að ákveða hvort nýta eigi gamla teikningu Guðjóns Samúelssonar.

<>

Forsætisráðherra vakti athygli fyrir páska þegar hann kynnti tillögu um nýja skrifstofubyggingu Alþingis og að hún risi á grunni hundrað ára gamallar teikningar Guðjóns Samúelssonar. Í umræðu hefur forsætisráðherra verið sakaður um að fara inn á verksvið þingsins. En hvað segir forseti Alþingis? Er verið að grípa fram fyrir hendur forsætisnefnd?

„Það er alls ekki þannig og þetta verður auðvitað að lokum ákvörðun þingsins með hvaða hætti verður byggt yfir þingið,“ segir Einar.

„Ég lít fyrst og fremst á þetta sem stuðning ríkisstjórnarinnar við þessa viðleitni okkar í forsætisnefnd að finna varanlega lausn fyrir þingið á framtíðarhúsnæði þess.“

Einar segir frumkvæðið hafa verið hjá forsætisnefnd og mikilvægt hafi verið að ríkisstjórnin hafi tekið undir fjárhagsleg sjónarmið þingsins. Alþingi leigi núna húsnæði á nokkrum stöðum í miðborginni með ærnum tilkostnaði.

„Þegar við fórum að skoða þessi mál þá var það niðurstaða okkar að skynsamlegra væri, frá fjárhagslegu sjónarmiði, að Alþingi eignaðist sitt eigið húsnæði. Þannig höfum við verið að vinna með þetta í forsætisnefndinni og verið bærilegur samhljómur um það.“

Þegar Einar er inntur álits á þeirri hugmynd að byggja á þessari gömlu teikningu segir hann ekki tímabært að taka afstöðu til hennar. Útlit hússins sé eitthvað sem menn vinni úr í framtíðinni.

„Þannig að ég í sjálfu sér á þessu stigi get ekki tekið afstöðu til þessarar teikningar, sem ég hef ekki kynnt mér nægjanlega og hef þannig ekki áttað mig á því með hvaða hætti hún fellur að þessu umhverfi hérna né að þörfum þingsins.“