Home Fréttir Í fréttum Ráðast þarf í milljarða uppbyggingu við Jökulsárlón

Ráðast þarf í milljarða uppbyggingu við Jökulsárlón

57
0
Mikill fjöldi heimsækir Jökulsárlón á hverju ári og það kallar á þjónustuhús og fleira. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Ráðast þarf í milljarða framkvæmdir við Jökulsárlón og Vatnajökulsþjóðgarður ákveður hvort einkaaðilar taki þátt í uppbyggingu á stóru þjónustuhúsi. Félag heimamanna vill gjarnan taka verkefnið að sér svo ágóði við lónið verði eftir í heimabyggð.

<>

Í fyrra heimsótti tæp milljón ferðamanna Jökulsárlón á Breiðamerkursandi og tölur benda til að í ár verið þeir enn fleiri. Í fyrrasumar hóf þjóðgarðurinn gjaldtöku fyrir bílastæði en aðstaðan þykir ekki sæma þessari perlu, þar sem ferðamenn geta myndað sig með jökulmolum rétt við þjóðveg eitt.

Þurfa að byggja talsvert á svæðinu
„Hugmyndin er að fara í mikla uppbyggingu þar sem verði bæði sýning og móttaka fyrir gesti. Það verður auðvitað mikið af salernum, aðstaða fyrir veitingastaði eða þannig aðila og minjagripasala.

Þannig að þetta eru ansi margir fermetrar sem þarf að byggja upp í húsnæði en svo þarf líka að byggja upp bílastæði og aðstöðu fyrir fólk sem starfar á svæðinu þannig að þetta er gríðarlega mikil og kostnaðarsöm framkvæmd sem mun örugglega hlaupa á einhverjum milljörðum,“ segir Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Línur skýrast í haust
Smærri aðgerðir eru komnar af stað svo sem að bæta salernisaðstöðu, en stærri uppbygging til framtíðar verður kostnaðarsöm.

Eftir markaðssamtal þar sem fjöldi fyrirtækja lýsti áhuga, var skoðað hvort ríkið eða einkaaðilar ættu að sjá um uppbygginguna eða í samvinnu. Viðkomandi ráðuneyti hafa nú sett málið í hendur þjóðgarðsins og munu svæðisráð og stjórn taka það fyrir í haust.

Hafa safnað hlutafjárloforðum
Heima fyrir er þrýstingur á að samið verði við fasteignafélag undir hatti Ferðamálafélags Austur Skaftafellssýslu. Fjöldi fólks og fyrirtækja á svæðinu hefur lofað hlutafé í félagið og vilja að ágóði af starfsemi við lónið verði eftir í heimabyggð. Þjóðgarðinum ber samkvæmt lögum að hafa hagsmuni nærsamfélagsins í huga.

„Hvaða leið svo sem verður farin að þá verður ákvörðun tekin með hagsmuni samfélagsins í huga. Lög og markmið Vatnajökulsþjóðgarðs gera ráð fyrir því að atvinnustarfsemi í nærsamfélaginu sé styrkt,“ segir Steinunn Hödd.

Heimild: Ruv.is