Framkvæmdir við ofanflóðavarnir fyrir þéttbýli þar sem hætta er talin mest, hafa tafist um áratugi. Aðeins hluti af ofanflóðagjaldi skilar sér í ofanflóðasjóð. Þetta kemur fram í hraðúttekt Ríkisendurskoðunar.
Framkvæmdum við ofanflóðavarnir miðar mun hægar en áætlað var, enda rennur aðeins hluti af innheimtu ofanflóðagjaldi til Ofanflóðasjóðs. Þetta kemur fram í nýrri hraðúttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri Ofanflóðasjóðs. Varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir úttektina afhjúpa brotalamir.
Þegar lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tóku gildi árið 1997 var lagt upp með að varnir fyrir mestu hættusvæði í þéttbýli yrðu tilbúnar 2010. Aðeins hefur verið lokið við um helming þessara varna og nú er áætlað að þær verði í fyrsta lagi tilbúnar fyrir árslok 2033, 23 árum síðar en upphaflega var gert ráð fyrir.
Í úttekt Ríkisendurskoðunar kemur líka fram að loftslagsráðuneytið hafi ekki sett reglugerð um ofanflóðagjald og að eftirliti með innheimtu þess sé ábótavant.Ofanflóðagjald á að greiðast af öllum brunatryggðum fasteignum en í úttektinni segir að það hafi ekki verið sannreynt hvort gjaldið sé sannarlega greitt í öllum tilvikum.
Á því tíu ára tímabili sem skoðað var í úttektinni, árin 2013 til 2023, voru 29,7 milljarðar króna innheimtir í ofanflóðagjald en aðeins 17,7 milljarðar runnu í Ofanflóðasjóð – og þar með til uppbyggingar ofanflóðavarna. Það eru um 60%.
Brotalamir í kringum ofanflóðavarnir
Úttektin var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Sigmar Guðmundsson, Viðreisn, er annar varaformaður nefndarinnar.
„Það sem auðvitað stingur mig pínulítið er að það var gerð áætlun á sínum tíma um það að reyna að klára mikilvægustu ofanflóðavarnir á landinu fyrir 2010. Við erum mjög langt frá því að uppfylla það og miðað við það sem fram kemur í úttekt ríkisendurskoðunar má ekki áætla að það verði orðið að veruleika fyrr en í árslok 2033.“
Hann segir misræmið milli innheimts ofanflóðagjalds, tæplega 30 milljarða, og þess sem rann í Ofanflóðasjóð, tæplega 18 milljarða, líka vekja athygli.
„Þarna er auðvitað talsvert mikið misræmi og segir okkur, eins og við þekkjum úr öðrum dæmum, að það er stundum verið að innheimta pening fyrir ríkissjóð í tiltekin verkefni, eða hefur verið þannig í gegnum tíðina þótt það hafi verið að breytast í seinni tíð, og svo renna peningarnir ekkert endilega að fullu í þau verkefni sem að var stefnt.“
Sigmar segir málefni Ofanflóðasjóðs áfram verða til skoðunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Þetta var bara fín yfirferð í morgun og segir okkur að það eru þarna brotalamir sem þarf að fara yfir og lagfæra regluverkið í kringum ofanflóðavarnir hér á Íslandi.“
Heimild: Ruv.is