Home Fréttir Í fréttum Húsasmiðjan hagnaðist um 912 milljónir

Húsasmiðjan hagnaðist um 912 milljónir

78
0
Árni Stefánsson er forstjóri Húsasmiðjunnar. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Tekjur Húsasmiðjunnar drógust saman um 2,6% milli ára. Stjórn og forstjóri segja hátt vaxtastig hafa haft áþreifanleg áhrif.

<>

Húsasmiðjan hagnaðist um 912 milljónir króna árið 2023, sem samsvarar 15,8% arðsemi eiginfjár, samanborið við 1,2 milljarða hagnað árið áður.

Tekjur byggingavöruverslunarinnar drógust saman um 2,6% milli ára og námu 26,6 milljörðum en framlegð jókst þó lítillega og nam um 9,1 milljarði. Húsasmiðjan rekur 14 verslanir undir eigin og rekur til viðbótar sjö Blómavals verslanir og fjórar rafvöruverslanir undir merki Ískraft.

Rekstrargjöld félagsins námu rúmum 8,2 milljörðum króna og jukust um 7,7% milli ára. Stærsti kostnaðarliðurinn, laun og launatengd gjöld ásamt öðrum starfsmannakostnaði, nam 4,7 milljörðum og jókst um 8,9% frá fyrra ári. Fjöldi ársverka jókst úr 397 í 400 milli ára.

Eignir í árslok námu 10,8 milljörðum króna í árslok 2023 og eigið fé var tæplega 6,1 milljarður. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði einn milljarður króna í arð til móðurfélagsins Bygma Ísland í ár en Húsasmiðjan er í eigu dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma.

Skjáskot af Vb.is

Vaxtabyrði heimila haft áþreifanleg áhrif
Í skýrslu stjórnar og forstjóra Húsasmiðjunnar í ársreikningi félagsins segir að hráefnisverð á sumum byggingavörum hafi lækkað í fyrra eftir miklar hækkanir árið áður.

„Þrátt fyrir að átökin í Úkraínu hafi áfram haft áhrif á verð á tilteknum byggingavörum eins og stáli, tókst Húsasmiðjunni að ráða fram úr þessum áskorunum og tryggja sér aðra birgja til að þjóna viðskiptavinum án teljandi truflana. Há verðbólga og hátt orkuverð í Evrópu, stuðlaði að hærra innkaupsverði fyrir ýmsar vörur, ásamt því að flutningskostnaður var almennt yfir meðallagi.“

Þá hafi ákvörðun Seðlabankans að hækka vexti upp í 9,25% í fyrra haft „áþreifanleg áhrif“, einkum aukna fjárhagslega byrgði á heimilin ásamt því að hækka vaxtakostnað byggingarverktaka og framkvæmdaaðila.

„Þetta hefur leitt til þess að eftirspurn eftir nýjum íbúðum hefur dregist markvert saman undanfarið sem aftur hefur dregið úr nýjum byggingarframkvæmdum. Þegar horft er fram á veginn er tölvuerð óvissa um þróun nýbygginga, einkum er óvissu um hvernig vextir munu þróast árið 2024.

Annar áhrifaþáttur er flutningur um 4.000 íbúa Grindavíkur vegna eldvirkni í nágrenninu. Aðgerðir til stuðnings Grindavíkur geta haft áhrif á eftirspurn eftir húsnæði og þar með haft áhrif á sölu á byggingavörum. Flestar spár benda einnig til þess að byggja þurfi mun meira af íbúðarhúsnæði en nú er í byggingu.“

Fjallað var fyrst um rekstrarniðurstöðu síðasta árs hjá Húsasmiðjunni í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.

Heimild: Vb.is