Þótt umfang íbúðauppbyggingar dragist saman fjölgaði þeim sem starfa í byggingariðnaði á fyrsta fjórðungi ársins, miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Fjöldinn er sambærilegur því sem hann var árið 2008, skömmu fyrir bankahrun.
Fjöldi þeirra sem starfar í byggingariðnaði, á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra, er orðinn sambærilegur því sem hann var skömmu fyrir bankahrun árið 2008. Umfang íbúðauppbyggingar dregst þó saman.
„Ég veit ekki nákvæmlega hver skýringin er. En það er allavega vísbending um að þessi geiri sé að sinna öðrum verkefnum í kannski meira mæli en hann hefur gert áður,“ segir Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Fram kemur á heimasíðu HMS að umfang byggingageirans hafi aukist jafnt og þétt eftir hrun og undanfarin ár hafi hlutdeild hans af vinnumarkaðinum í heild verið 8 prósent.
Seðlabankinn segir í Peningamálum sem birt voru í gær að frekari tafir á byggingaframkvæmdum gætu leitt til meiri hækkunar á húsnæðisverði en nú er spáð.
Verktakar segja mikla spurn eftir húsnæði og háir vextir hækki byggingakostnað og þar með íbúðaverð. Jónas Atli segir að spár geri ráð fyrir því að mikil íbúðarþörf verði næstu tíu ár hið minnsta.
Heimild: Ruv.is