Home Fréttir Í fréttum Borgin íhugar að kæra niðurrifið

Borgin íhugar að kæra niðurrifið

135
0
Það eina sem stendur eftir af Exeter-húsinu

Verktakar rifu í algeru leyfisleysi svonefnt Exeter-hús í Tryggvagötu í gær. Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar. Borgin íhugar að kæra niðurrifið til lögreglu og formaður skipulagsráðs kallar þetta skemmdarverk.
Exeter-húsið var reist 1906, blátt að lit og stóð við Tryggvagötu 12. Það verður hluti af hóteli á horni Tryggvagötu og Norðurstígs á svonefndum Naustareit. Húsið við hliðina, númer 14, var rifið í mars og var leyfi fyrir því. Leyft hafði verið að rífa bakhlið Exeterhússins, hækka það um eina hæð, stækka út í bakgarðinn og endurbyggja með upprunalegu útliti.

<>

„Þetta lítur hræðilega út. Og ég var hér á ferð seint í gærkvöldi og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augun þegar ég sá hvað var að gerast og hafði gerst; risastór græja að rífa niður þetta hús. Og ég hafði strax samband við byggingafulltrúa og í morgun, klukkan átta í morgun, að þá var hann mættur á staðinn og þessi framkvæmd hefur verið stöðvuð. Og hún er í algeru leyfisleysi,“ segir Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Þetta er skemmdarverk
Niðurrifið kom borgaryfirvöldum mjög á óvart því þeir sem standa að framkvæmdunum hafa verið í miklu sambandi við borgina um verkið. Fyrirtækinu Tryggvagötu ehf. sem stendur að þessu þarf að skila inn skýringum til borgarinnar innan sjö daga. „Borgin lítur á þetta mjög alvarlegum augum og við íhugum það að kæra þetta til lögreglu. Er þetta skemmdarverk? Já, þetta er skemmdarverk,“ segir Hjálmar.

Hjálmar segir deiliskipulag vera sátt milli borgaryfirvalda, lóðarhafa og nágranna og nú hafi sú sátt verið rofin. „Það hefði verið hægt að taka það niður hluta fyrir hluta og nota síðan þessu heilu hluta til þess að byggja það upp aftur. En hér er bara risagræjan notuð til að mala það mélinu smærra.“

Heimild: Rúv.is