Home Í fréttum Niðurstöður útboða Samið um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4

Samið um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4

525
0
Mynd: Guðmundur Ingi Ásmundsson og Árni Helgason handsala samning vegna Þeistareykalínu 1.

Landsnet hefur skrifað undir samning við Árna Helgason ehf. um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1 og á næstu dögum verður skrifað undir samning við G. Hjálmarsson hf. vegna undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4.

<>

Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu við Þeistareykjalínu 1, milli Þeistrareykjavirkjunar og iðnarsvæðisins á Bakka, hljóðaði upp á ríflega 386 milljónir króna og átti Árni Helgason ehf. lægsta tilboðið í verkið, upp á tæpar 469,5 milljónir króna. Nú hefur verið gengið frá samkomulagi um verkið við Árna Helgason, framkvæmdir hefjast í byrjun maí og skal verkinu að fullu lokið 1. október í haust.

Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4, milli Kröflu og Þeistareykjavirkjunar, var rétt rúmlega 430 milljónir króna og átti G. Hjálmarsson hf. lægsta tilboðið, upp á tæplega 448,5 milljónir króna. Verður skrifað upp á samning við fyrirtækið um verkið á næstu dögum.

Þá verða tilboð í möstur Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 opnuð á föstudag og verið er að bjóða út reisingu og strengingu línanna í vikunni. Á næstu vikum verður annað efni í línurnar boðið út. Tilboð í tengivirki á Bakka, Þeistareykjum og í Kröflu voru opnuð fyrir nokkru og eru nú til skoðunar hjá Landsneti. Jafnframt hefur allur búnaður í tengivirkin verið boðinn út.