Home Fréttir Í fréttum Myglusveppur greindist í gólfdúk á leikskóla

Myglusveppur greindist í gólfdúk á leikskóla

238
0
Yngra stig leikskólans Ársala á Sauðárkróki við Víðigrund. Mynd/BÞ

Raki í húsnæði yngra stigs leikskólans Ársala á Sauðárkróki hafði valdið áhyggjum nokkurra foreldra sem óttuðust að þar kynni að vera myglusveppur. Þær áhyggjur reyndust á rökum reistar samkvæmt niðurstöðum rannsókna á sýni sem skoðað var af Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðingi Náttúrustofnunar Íslands, og gerð voru kunn á upplýsingafundi með foreldrum í gær. 

<>

Haldnir hafa verið þrír fundir með foreldrum og hefur verið greint frá honum fyrri tveimur hér á feyki.is. Fyrsti fundurinn var haldinn þann 25. febrúar og annar fundurinn fór fram 2. mars og þar gerði Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi grein fyrir niðurstöðum úr sýnatöku sem hann gerði með svokölluðum agarskálum með næringaræti sem hann kom fyrir á hverri deild á leikskólanum þann 26. febrúar.

„Niðurstaða sýnatöku er jákvæð og bendir eindregið til þess að mygla í húsnæðinu, sé ekki heilsufarlegt vandamál í leikskólanum,“ segir í skýrslu Heilbrigðiseftirlits NV, sem jafnframt var útbýtt á fundinum í gær. Sumir foreldrar voru ekki fyllilega sáttir við þessa niðurstöðu og vildu fá nánar úr því skorið hvort myglusveppur leynist undir gólfefnum deildarinnar Læk og vildu láta kalla til sérfræðing. Nafn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings var þá nefnt í því samhengi og var tekið vel í það og rekið sýni í samráði við hana, sem henni barst 14. mars.

Samkvæmt greinagerð Guðríðar Gyðu, sem útbýtt var á fundinum, greindist ein tegund myglusvepps í gólfdúk á deildinni Læk að tegundinni Cladosporium.  Rannsakaðir voru þrír bútar af línóleum gólfdúki, tveir úr gólflista, sem límdur var neðst á vegginn en sá þriðji var úr gólfi í horni herbergis.

„Ekki mikið en hér og þar inni í þéttiefni og á nokkrum stöðum hafði dökkur sveppavöxtur troðið sér niður í dúkinn og var þar allhress að sjá þegar skornar voru þunnar sneiðar ofan í dúkinn þar sem hann var með eins og svartar æðar af sveppavexti og sneiðarnar skoðaðar í smásjá,“ segir í greinargerð.

„Mest var af myglu í horni herbergis. Eini sveppurinn sem óx í sýninu úr Læk var Cladosporium tegund. Sveppavöxturinn var á yfirborði dúksins og í þéttiefninu og náði á nokkrum stöðum niður í dúkinn en ekki í gegnum hann. Neðra borð dúksins var því heilt og laust við myglu.“ 

Fram kemur að loftskipti hafi ekki verið nóg á þessari deild í vetur, raki úr lofti þést og skapað aðstæður sem urðu til þess að gólfdúkur næst veggnum myglaði. „Sú lýsing passar við það sem sást í sýninu. Nú hafa loftskiptin verið bætt og mun verða fylgst með því að þetta gerist ekki aftur,“ segir Guðríður. „Það skal tekið fram að ef marka má sýnin þá er mjög lítið magn af Cladosporium tegundinni til staðar núna miðað við það sem var áður en myglan uppgötvaðist,“ bætir hún við.

Mygla var um allt neðra borð dúksins

Á deildinni Lóni var gólfdúkurinn verr farinn og undir honum greindust fleiri gerðir af myglusvepp. Rannsakaður var einn bútur af línóleum gólfdúki sem tekinn var úr gólfi við útvegg.

„Gólfdúkurinn var illa farinn og þegar litið var neðan á hann sást að strigauppistaða dúksins var samanskroppin, svört á litinn og bæði mygluð og fúin. Dúkurinn sjálfur var orðinn harður og brotnaði því þegar hann var tekinn af gólfinu. Þegar línóleum dúkur myglar eru það oft tegundir af Aspergillus ættkvíslinni sem vaxa neðan á slíkum dúk. Þær uxu á þessum dúki á deildinni Lóni ásamt fjölbreyttu vistkerfi annarra heldur skárri myglusveppa, bakteríum og smádýrum sem lifa á myglunni og skíta gróum sveppanna snyrtilega samanþjöppuðum sem skítaspörðum. Mygla var um allt neðra borð dúksins, í líminu undir honum og að öllum líkindum í múrnum í gólfinu undir líminu.“

Sveppir sem fundust voru Scopulariopsis tegund, Eurotium herbariorum, Aspergillus tegund (sem vel gæti verið litafrugga, Aspergillus versicolor), Penicillium tegund, Acremonium tegund og Phialophora tegund. Einnig geislabakteríur. Smádýr sem lifa á myglu, mítlar og mordýr líklega og mikið af skít þeirra.

„Það má reikna með að flestir sveppir sem vaxa innanhúss geti valdið ofnæmislegum einkennum sem líkjast frjóofnæmi og einkennum sem líkjast astma. Algengir meðalslæmir sveppir eins og tegundir Cladosporium ættkvíslarinnar og Scopulariopsis tegundir myndu falla undir þann hóp ásamt flestum Acremonium tegundum. 

Af þeim sveppum sem fundust var það Aspergillus tegundin sem gæti verið litafrugga sem verður að teljast verst í sambúð innanhúss. Penicillium tegundin ætti að vera heldur skárri. Báðir þessir tegundahópar framleiða mikið af léttum gróum ætluðum til dreifingar með loftstraumum og geta framleitt varasöm efni þótt það fari eftir aðstæðum hvernig sú framleiðsla heppnast. Geislabakteríur líkjast sveppum að vissu leyti þar sem þær vaxa sem örmjóir þræðir en eru mun minni. Þær geta framleitt létt efni sem af er sterk fúkkalykt og eru óæskilegar innanhúss,“ segir loks í greinargerð.

Ekki þörf á að loka leikskólanum á meðan framkvæmdir og hreinsun stendur yfir

Með greinagerðinni fylgdu leiðbeiningar um hvernig best er að meðhöndla myglusveppina við hreinsun hans og að sögn fulltrúa sveitarfélagsins sem staddir voru á fundinum verður þeim leiðbeinginum fylgt til hins ýtrasta.

Framkvæmdir eru þegar hafnar á Lóni þar sem verið er að fjarlægja gólfdúk og koma fyrir ofngrindum. Þá verður hitaþræði komið fyrir í gólfi og til að stemma stigu við kuldabrú sem þar er. Loks verður deildin máluð. Þegar framkvæmdum er lokið á Lóni verður farið í Læk og skipt um hluta af dúk, samkvæmt leiðbeiningum Guðríðar, settar ofngrindur svo hægt sé að kynda betur og auka loftun rýmisins. Þar verður jafnframt málað. Þá stendur að auki til að skoða veggi leikskólans að utan í sumar sem og skipta um þakglugga í sal, þar sem mygla hefur myndast. Þá hefur starfsfólk verið frætt um myglusvepp svo hægt sé að vera vakandi fyrir honum. Einnig verður einnig farið yfir þrifamál.

Fram kom á fundinum að samkvæmt niðurstöðum Guðríðar Gyðu þykir ekki ástæða til að loka leikskólanum á meðan á framkvæmdum stendur. Þar sem myglusveppurinn greindist að mestu undir gólfdúk, og að niðurstöður sýnatöku heilbrigðisfulltrúa gáfu til kynna að myglusveppurinn væri ekki í andrúmsloftinu, bendir það til þess að mygla í húsnæðinu sé ekki heilsufarslegt vandamál í leikskólanum.

Nánari upplýsingar um þær gerðir myglusveppa sem hér eru nefndar má lesa hér að neðan:

Í Aspergillusættkvíslinni eru 266 tegundir (Kirk o.fl. 2008) sem vaxa ýmist með eða án

kynstigs síns en þau tilheyra ættkvíslunum Eurotium, Neosartorya, eða Emericella af ættinni

Trichocomaceae. Þetta eru tiltölulega hitakærir sveppir og eru sumar tegundir aðlagaðar

þurrki og þeir mynda mikið af smáum gróum sem henta vel til dreifingar með loftstraumum.

Abbott (2004) segir Aspergillus tegundir vaxa innanhúss þegar skilyrði séu á annað borð fyrir

vexti sveppa þar. Þar sem margar tegundir séu aðlagaðar þurrki eða þoli þurrk um tíma geta

Aspergillus tegundir vaxið þar sem fæstir aðrir sveppir ná fótfestu. Þar sem gró þeirra verða

auðveldlega loftborin og það oft í miklu magni þá eru Aspergillus tegundir varasamar og geta

mengað inniloft og valdið veikindum hjá því fólki sem andar að sér grómenguðu lofti. Margar

tegundir geta framleitt sveppaeiturefni en yfirlit um þau, byggingu og virkni má sjá á

 

Aspergillus heimasíðu undir liðnum mycotoxins. Sumar Aspergillus tegundir framleiða

aflatoxín sem eru best þekktu sveppaeiturefnin en þau eru meðal eitruðustu efna sem til eru og

þar að auki ákaflega krabbameinsvaldandi. Aspergillus tegundir valda ofnæmi og astma en

lítil gróin berast auðveldlega niður í lungu (Fungal glossary, Aspergillus heimasíða –

mycotoxins).

Samkvæmt Samson o.fl. (2010) og Nielsen & Frisvad (2011) framleiðir litafrugga, A.

versicolor, sveppaeiturefnið sterigmatocystin, oftast í miklu magni ásamt nokkrum efnum sem

verða til við framleiðslu þess. Sveppaeiturefnið sterigmatocystin er krabbameinsvaldandi (e.

carcinogenic). Á lista yfir þau efni (afleidd efni, e. secondary metabolites) sem litafrugga

framleiðir eru 26 efni (Aspergillus heimasíða 2014). Þótt Aspergillus tegundir séu flestar

fremur hitakærar þá er litafrugga það ekki og getur vaxið við 5°C (Nielsen & Frisvad 2011).

 

Cladosporium tegundir eru mjög algengar í sýnum úr húsum þar sem myglusveppir vaxa

(Samson o.fl. 2010) og eru þeir sveppir algengir þar sem raki þéttist á máluðum flötum þar

sem kuldabrýr eru til staðar. Þeir eru oftast þeir sveppir sem fyrstir vaxa upp á rökum þakviði

húsa. Þessir sveppir vaxa í náttúrunni á rotnandi plöntuleifum og eru mjög algengir á sinu og

rotnandi laufi og þar með eru gró Cladosporium tegunda yfirleitt alltaf til staðar í loftinu og

spíra og vaxa upp í svartar myglur þar sem raki er til staðar innanhúss. Cladosporium tegundir

geta valdið ofnæmi og astma (Fungal Glossary). Þessir sveppir þola þurrk nokkuð vel og

þegar mygla sem þraukað hefur í þurrki um tíma fær skyndilega vatn þá hefst vöxtur

sveppsins mjög hratt. Nielsen & Frisvad (2011) fara yfir það hvað helstu hópar

innanhússsveppa mynda af sveppaeiturefnum (e. mycotoxins) og þar segir að ekki séu þekkt

nein sveppaeiturefni sem mynduð séu af Cladosporium tegundum. Það skal þó tekið fram að

kona á Egilsstöðum sem bjó í húsi sem í ljós kom að var mjög þéttvaxið Cladosporium tegund

en fáum öðrum sveppum fékk rauða bletti sem urðu að sárum á húð einkum á fótleggjum og

handleggjum.

 

Í Penicillium ættkvíslinni eru 304 tegundir. Penicillium er ættkvísl vankynssveppa en kynjuð

stig tilheyra ættkvíslum Eupenicillium og Talaromyces af ættinni Trichocomaceae (Kirk o.fl.

2008). Þessir sveppir framleiða mikið magn smárra gróa sem ætluð eru til dreifingar með

loftstraumum. Ýmislegt bendir til þess að það að anda að sér Penicillium gróum sem í eru

sveppaeiturefni eigi þátt í að valda heymæði (Organic dust toxic syndrome) og því sem

líklega er hægt að kalla á íslensku húsasótt af völdum sveppa (Non-infectious fungal indoor

environmental syndrome). Penicillium tegundir valda ofnæmi og ofnæmislungnabólgu

(hypersensitivity pneumonitis) og ofnæmisastma (Fungal Glossary).

 

Scopulariopsis tegundir eru vankynsstig smáeskinga, asksveppa af ættkvíslinni Microascus,

og vaxa oft innanhúss þar sem raki er til staðar og brjóta niður beðmi (t.d. pappír). Þessir

sveppir mynda ekki sveppaeiturefni svo vitað sé en eins og margir smásveppir þá geta þeir

valdið ofnæmi (Fungal Glossary).

 

Geislabakteríur (e. actinobacteria, actinomyces) eru þráðlaga Gram-jákvæðar bakteríur sem

svipar að vissu leyti til sveppa en eru mun fíngerðari. Flestar þeirra eru rotverur í jarðvegi en

fáeinar lifa sníkjulífi og geta valdið sjúkdómum. Mjög mikilvæg lyf eins og streptomycin,

nystatin og cycloheximide eru upprunnin í geislabakteríum (Kirk o.fl. 2008). Geislabakteríur

vaxa innan um sveppi í röku húsnæði og ákveðna fúkkalykt má rekja til þeirra. Það sama

gildir um þær og myglusveppi innanhúss að vöxtur þeirra er óæskilegur og þær eigi að

fjarlægja.

 

Faglegar heimildir:

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2016). Rannsókn á myglusveppum í tveimur sýnum af gólfdúk úr húsnæði yngri deildar í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki. Akureyri: Náttúrustofnun Íslands.

Sigurjón Þórðarson (2016). Athugun á myglu í leikskólanum Ársölum ungra stigi á Sauðárkróki. Sauðárkrókur: Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra.

Heimild: Feykir.is