Fyrsti áfangi af fjórum á Orkureitnum svokallaða, A-áfangi, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, fer í sölu á næstu dögum. Um er að ræða 68 íbúðir í sjö hæða húsi við Suðurlandsbraut, vestan við Orkuhúsið.
Tíu íbúðir hafa þegar selst í forsölu, þar af öll efsta hæðin, að sögn Hilmars Ágústssonar framkvæmdastjóra byggingarfélagsins Safírs sem er eigandi og umsjónaraðili Orkureitsins. Íbúðirnar 68 verða allar afhentir samtímis næsta haust. Stærð þeirra er á bilinu 38-166 fermetrar.
Verði góður staður
Blaðamaður Morgunblaðsins fékk að skoða tölvuunnar myndir og myndbönd af framkvæmdinni. Hún er vægast sagt vönduð og aðlaðandi, enda er hugað að hverju smáatriði eins og Hilmar fer yfir.
„Það er mikið lagt upp úr því að Orkureiturinn verði góður staður til að búa á. Við leggjum áherslu á að íbúðir séu bjartar með góðum loftgæðum og vönduðum og umhverfisprófuðum byggingarefnum auk þess að lóðin sé falleg og þjónusti íbúana vel.
Við byrjum með því að setja þessar fyrstu 68 íbúðir á markað. Síðan verður næsti áfangi líklega settur í sölu í haust. Verklok reitsins í heild verða í enda árs 2027. Við munum þannig bjóða upp á 100-140 nýjar íbúðir á hverju ári til ársins 2027.“
436 íbúðir á reitnum
Samtals verða 436 íbúðir byggðar á reitnum. Þeim öllum fylgir aðgangur að stóru tveggja hæða bílastæðahúsi neðanjarðar sem verður að hluta til samnýtt.
„Það er einnig hægt að fá sérmerkt stæði. Þá fylgja séreignarbílskúrar með sumum íbúðum.“
Verð íbúða er frá rúmum 50 milljónum og upp í á annað hundrað m.kr.
„Á Orkureitnum leggjum við áherslu á að byggja hagstæðar en vel útbúnar íbúðir með gott skipulag og með lágmarksumhverfisáhrifum.
Deiliskipulagið fyrir A-áfangann bauð upp á litlar tveggja og þriggja herbergja íbúðir fyrir fyrstu kaupendur eða minni fjölskyldur. Þorri íbúðanna í þessum fyrsta áfanga er því frá 57 fm að stærð og upp í rúma 80,“ útskýrir Hilmar.
Hann segir að húsin á Orkureitnum verði fjögur í allt og séu hönnuð til að mæta þörfum mismunandi markhópa. Til samanburðar nefnir Hilmar að næsti áfangi sem kallaður er áfangi D, átta hæða hús á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar með 134 íbúðum sem koma í sölu í haust, sé hannaður fyrir annan markhóp en áfangi A.
„Í áfanga D eru íbúðir stærri og fyrir fólk með rýmri fjárráð. Baðherbergi eru víðast inn af svefnherbergjum, stofurými eru stór, gólfhiti er í öllum íbúðum og gluggar eru stórir og gólfsíðir. Þá er útsýni mikið frá nær öllum hæðum. Þar verða íbúðir með þaksvölum, pottum og gufuböðum og bílskúrum í bílastæðahúsi.“
Á jarðhæðum húsanna er 1.600 fm atvinnuhúsnæði, sem fasteignafyrirtækið Reitir hefur fest kaup á. Þar verður lögð áhersla á þjónustu við íbúa, eins og hárgreiðslustofur, veitingahús og kaffihús. Þá nýtur fólk nálægðar við Laugardalinn og Skeifuna.
Nánar er rætt við Hilmar um uppbygginguna á Orkureitnum í ViðskiptaMogganum í dag.
Heimild: Mbl.is