Home Fréttir Í fréttum Aukin eftirspurn á fasteignamarkaði og væntingar um vaxtalækkun

Aukin eftirspurn á fasteignamarkaði og væntingar um vaxtalækkun

56
0
Mynd: Ruv.is/ Kastljós

Fasteignamarkaðurinn er að hitna aftur eftir að hafa kólnað fyrir áramót. Fasteignasali segir skýringa að leita í innkomu Grindvíkinga á markaðinn og væntinga um vaxtalækkun.

<>

Eftir margra mánaða ládeyðu á fasteignamarkaði fóru hjólin aftur að snúast upp úr áramótum. Íbúðir eru farnar að seljast á yfirverði og húsnæðisliðurinn er helsta ástæða þess að verðbólga hækkar á milli mánaða.

Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og framkvæmdastjóri Húsaskjóls, og Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ræddu stöðuna á fasteignamarkaði í Kastljósi í gær.

Fjöldi kaupenda úr Grindavík og væntingar um vaxtalækkun

Ásdís segir í raun tvær stórar breytur hafa lífgað fasteignamarkaðinn við eftir áramót. „Stærsta breytan er náttúrulega Grindavík. Grindavík fer svolítið á fullt eiginlega í febrúar að kaupa, með fyrirvara um að ríkið muni þá kaupa eignirnar út.“

Hin breytan segir Ásdís að sé umræða um að verðbólga muni lækka. „Vextirnir séu mögulega að fara að lækka. Og þá vitum við bara; ég er búin að vera fasteignasali í 21 ár, við vitum hvað gerist, um leið og vextir lækka koma allir inn á markaðinn sem eru búnir að vera að bíða.“

Hátt vaxtastig takmarki ekki eftirspurn til langs tíma

Jónas Atli segir framboð á fasteignamarkaði ágætt. HMS horfi á gögn nokkrar vikur aftur í tímann en þar séu þau farin að sjá fyrstu vísbendingarnar um að markaðurinn sé farinn að hitna.

„Við vitum að eftirspurnin minnkaði aðeins eftir að stýrivextir fóru að hækka og það er í samræmi við allar væntingar; að eftirspurn minnkar þegar er erfiðara að kaupa hús. En það eru ákveðin tímamörk á því hversu lengi fólk getur frestað því að kaupa íbúð. Þannig að ef að vextir haldast háir lengi þá ræðst eftirspurnin ekki endilega af vaxtastigi heldur frekar af íbúðaþörfinni.“

„Það er kannski það sem við erum að sjá núna, við erum að sjá svolítið mikla seiglu í eftirspurninni vegna þess að okkur er bara að fjölga mikið og fólk þarf að búa einhvers staðar,“ segir Jónsa Atli. Til langs tíma séu bara tvær breytur sem hafi áhrif á framboð og eftirspurn, það er hversu mikið af fólki sé í landinu og hversu mikið af íbúðum.

Mikil eftirspurn frá fyrstu kaupendum

Ásdís Ósk segir bremsur Seðlabankans á fasteignamarkaðinn farnar að hafa minni áhrif en þær gerðu. Keðjur slitni síður í við greiðslumat eins og gerst hafi um tíma. „Það hefur gjörbreyst. Við vorum að tala um það á fundi í gær að það hafa ekki fallið hjá okkur sölur í margar vikur.“

Ásdís segir sérstaklega mikla eftirspurn eftir fyrstu eignum þessa dagana. „Fyrstu kaupendur eru bara hreinlega að sjá hvað er að gerast. Þeir eru að horfa á að verðin eru aðeins að hækka. Það er rosaleg eftirspurn. Þannig að litlu íbúðirnar eru að rjúka út.“

Dregið úr uppbyggingu

Markmið voru sett um uppbyggingu 35.000 íbúða á tíu árum en að sögn Jónasar Atla er orðið afar ólíklegt að það náist. „Við erum ekki á leið í að gera það núna. Við sáum fyrst merki um að það væri að draga saman í íbúðauppbyggingu fyrir meira en ári síðan.

Svo hefur það bara haldið áfram og við sjáum auknar vísbendingar. Við vorum núna síðast hjá HMS með íbúðatalningu fyrir viku síðan. Þar sjáum við að umfang íbúðauppbyggingar er 10% minna en það var fyrir ári síðan.“

Þetta segir Jónas Atli grafalvarlegt mál ef horft sé til langs tíma. „Vegna þess að það tekur langan tíma að byggja þessar íbúðir. Þannig að við sjáum það að eftir tvö ár þá getum við fundið fyrir miklum skorti á nýjum íbúðum.“

Þetta geti leitt til verðhækkana. „Verðið fer bara eina leið ef eftirspurnin helst sú sama og framboðið minnkar, það fer upp.“

Þarf sérstaka uppbyggingu fyrir Grindvíkinga?

Þrýst hefur verið á um uppbyggingu vegna húsnæðisvanda Grindvíkinga, til að mynda uppbyggingu einingahúsa í líkingu við Viðlagasjóðshúsin sem byggð voru eftir Vestmannaeyjagos.

Jónas Atli segir það skapa spennu á húsnæðismarkaði að 1200 manns úr Grindavík komi inn á hann um leið. „Ef við gerum ráð fyrir því að íbúðaeigendur í Grindavík muni kaupa sér húsnæði á næstu þremur mánuðum þá ígildir það 50% eftirspurnaraukningu á fasteignamarkaði. Þannig að allar svona skammtímalausnir, eins og þú ert að tala um, einingahús eða eitthvað þannig, myndu létta á spennunni.“

Hann segir aðalmálið þó vera langtímahalla í íbúðauppbyggingu. „Það er að segja, við erum að byggja allavega þúsund íbúðum minna en við þurfum á hverju ári.“

Heimild: Ruv.is