Úrræðið hefur aukið eignamyndun Íslendinga til muna. Ríkisstjórnin vill nú afnema það vegna „tapaðra skatttekna“ sem nema um 8 milljörðum á ári.
Heimili hafa ráðstafað samtals um 85 milljörðum króna úr séreignarsparnaði inn á fasteignalán á síðustu fjórum árum, samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til fjárlaganefndar.
Úttektir og innborganir vegna úrræðis fyrir fyrstu fasteign námu 29,4 milljörðum á tímabilinu. Árið 2024 voru úttektir 2,85 milljarðar og innborganir 5,84 milljarðar, samtals 8,69 milljarðar króna.
Nýting hinnar almennu heimildar, innborgun séreignasparnaðar á höfuðstól fasteignalána og úttekt á uppsöfnuðum séreignasparnaði til greiðslu inn á höfuðstól fasteignalána, nam 53,9 milljörðum á fjórum árum, þar af 14,49 milljörðum í fyrra.
Í minnisblaðinu segir að úrræðið hafi „kostað“ ríkissjóð um 33 milljarða á fjórum árum eða rúmlega 8 milljarða á ári. Hér er þó verið að talað um eftirgjöf í skattheimtu svo fólk geti keypt fyrstu fasteign eða greitt hraðar niður höfuðstól á húsnæðisláni sínu.
Núverandi ríkisstjórn hyggst afnema almenna úrræðið fyrir fasteignakaupendur fyrir áramót og er minnisblaðið unnið því til stuðnings til að sýna „tekjutap“ ríkissjóðs.
Nýting séreignasparnaðar inn á fasteignalán hefur þó verið vinsæl meðal fasteignakaupenda og sýnir minnisblaðið að nýtingin var mest árið 2024 þegar samtals voru greiddir rúmir 23 milljarðar inn á húsnæðisskuldir í gegnum bæði úrræði, þ.e. 8,69 milljarðar í fyrsta íbúðarúrræðinu og 14,49 milljarðar í almennu heimildinni.
Ráðuneytið bendir á að markmiðið með yfirlitunum sé að varpa skýru ljósi á umfang ráðstöfunarinnar eftir að fjárlaganefnd óskaði eftir heildarmynd síðustu fjögurra ára og, þar sem unnt væri, aðgreiningu milli fyrstu fasteignar og almennrar ráðstöfunar.
Niðurstaðan undirstrikar tvennt. Úrræðin hafa verið nýtt í umtalsverðum mæli síðustu ár og er ljóst að þessi eftirgjöf ríkisins á skattheimtu hefur aðstoðað fjölmarga að eignast húsnæði. Hins vegar horfir ríkið á lakari skatttekjur vegna úrræðisins og hyggst því ráðast í breytingar.
Heimild: Vb.is