
Vatni verður á næstunni að nýju hleypt á vélar Vatnsfellsvirkjunar en inntakslón orkuversins var tæmt í ágúst síðastliðnum. Það var gert þegar í ljós komu sprungur í jarðlögum sem liggja þvert á inntaksskurð.
Strax var ljóst að grípa þyrfti til aðgerða og því þurfti að stöðva rennsli úr Þórisvatni að virkjuninni sem er sú efsta í landinu af alls sjö aflstöðvum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.
Ístak var verktaki við viðgerðir á aðrennslisskurðinum sem fólust í grautun til að þétta sprungur og að hluta til steyptum veggjum til að þétta skurðinn. Suðurverk kom einnig að verkefninu við hreinsun á efni upp úr frárennslisskurði virkjunarinnar, en efni sem rofnaði úr hlíðinni ofan stöðvarhússins hafnaði að hluta til þar.
Heimild: Mbl.is