Home Fréttir Í fréttum Vegur lagður yfir heitt hraun

Vegur lagður yfir heitt hraun

224
0
Mynd: HS Orka

Framkvæmdir við nýja hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni eru komnar vel á veg og góð framvinda hefur verið í verkinu í dag. Vegagerð þvert yfir hrauntunguna gengur vel en hraunið er átta metra þykkt þar sem mest er.

<>

Allt lagnaefni er komið á vettvang og nú er unnið í mörgum hópum við að sjóða rör saman. Lögnin verður dregin yfir hrauntunguna og síðan tengd við Njarðvíkuræðina beggja vegna hrauntungunnar.

Mynd: HS Orka

Ef áætlanir ganga eftir verður mögulega hægt að hleypa á lögnina eftir 3-4 sólarhringa. Þá tekur tíma að fylla heitavatnstanka HS Orku á Fitjum og síðan mun taka um tvo sólarhringa áður en dreifikerfið nær að byggja sig upp. Því gæti liðið vika áður en heitt vatn er komið á öll hús á Suðurnesjum.

Jarðýta hefur í dag rutt slóða fyrir lagnaleiðina yfir heitt hraunið og nú er unnið að því að bera jarðvegsfyllingar ofan á hraunið. Miðað er við á ná að setja að minnsta kosti hálfan metra af malarpúða ofan í veginn.

Mynd: HS Orka

Áður en vegagerðin hófst var yfirborðshitastig hraunsins rannsakaður annars vegar með dróna og hinsvegar nákvæmari mælingum eftir því sem jarðvinnutækin fóru lengra út á hraunið. Sú staðreynd að tekist hafi að gera veg yfir hraunið einfaldar framkvæmdina til muna og er mikilvægur áfangi í verkinu.

Unnið er í mörgum suðuhópum við samsetningu lagnarinnar sem verður samtals 600 metra löng.

Mynd: HS Orka

Þegar suðuvinnu lýkur verður lögnin dregin með jarðýtu yfir hrauntunguna eftir nýja veginum. Samhliða þessu er unnið við hönnun og smíði á millitengingum til tenginga á nýju lögninni við Njarðvíkuræðina sitt hvorum megin við hraunið.

Mynd: HS Orka

Fjölmargir aðilar; verktakar, verkfræðistofur og sérfræðingar, koma að framkvæmdinni og verður unnið á vöktum dag og nótt þar til heitt vatn streymir að nýju til Reykjanesbæjar.

Heimild: Hsorka.is