Home Fréttir Í fréttum Búið að leggja veg yfir hraunið og vinna við hjáveitulögn gengur vel

Búið að leggja veg yfir hraunið og vinna við hjáveitulögn gengur vel

84
0
Aðsend – HS Veitur

Búið er að leggja veg yfir nýja hraunið sem rann fyrir helgi. Vinna við nýju hjáveitulögnina, sem á að leggja þar yfir, gengur vel.

<>

Vinna í nótt við hjáveitulögn Njarðvíkuræðar gekk vel og búið er að leggja veg yfir hraunið sem fór yfir Grindavíkurveg. Unnið er á sólarhringsvöktum og á stóru framleiðsluplani vinna suðuteymi að því að setja saman tugi stálröra í nýja lögn.

Búið er að sjóða saman um helming stálröranna sem mynda hjáveitulögnina, en sjóða þarf saman hátt í fimmta tug stálröra og vinna mörg suðuteymi að verkinu samtímis.

Lögnin verður um 500 metra löng og mun vega hátt í 80 tonn samansett.

Aðstæður á vettvangi í nótt voru nokkuð erfiðar til suðu og hvasst.

Unnið að veglagningu í gær, laugardag.
RÚV – Ragnar Visage

Um 50 manns unnu að framkvæmdum í nótt og vaktaskipti verða í dag. Kappkostað er að hleypa heitu vatni á Njarðvíkuræðina sem allra fyrst, segir á vef HS orku.

Verið er að flytja rúllukefli á framkvæmdasvæðið og lögnin verður sett ofan á þau og dregin af jarðýtum út á veginn sem lokið var við að leggja í nótt. Vonir standa til þess að hægt verði að draga fyrsta hluta lagnarinnar út á hraunið síðdegis í dag.

Heimild: Ruv.is