Mánudaginn 12. febrúar nk. breytir ráðgjafarfyrirtækið Mannvit nafni sínu og starfar að öllu leyti undir vörumerkinu COWI. Tilkynnt var um kaup COWI á Mannviti 1. júní á síðasta ári.
COWI er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku. Starfsmenn eru 8.000 að meðtöldum 280 einstaklingum á Íslandi. Að staðaldri eru verkefni fyrirtækisins um 10.000 víða um heiminn.
Samruni fyrirtækjanna tveggja og nafnbreytingin er næsta skref til vaxtar og aukinnar þjónustu á Íslandi, eins og Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri COWI á Íslandi útskýrir í samtali við Morgunblaðið.
Nýta samlegðaráhrif
Hann segir að með samrunanum verði auðveldara að nýta samlegðaráhrif, sveigjanleiki aukist sem og aðgengi að sérfræðingum COWI. Samruninn þýðir að sögn Arnar að COWI getur nú boðið íslenskum viðskiptavinum sínum aukna þjónustu, sérfræðiþekkingu sem og aukinn mannskap til að vinna verkefni frá frumhugmynd til verkloka.
„Á næstu árum áformar COWI að auka starfsemi og umsvif sín á Íslandi með áherslu á helstu styrkleika sína í innviðum, iðnaði, umhverfismálum og endurnýjanlegri orku. Þessi aukning mun byggjast á fjölbreyttum verkefnagrunni, meðal annars á þróun vindorku, á sviði rafeldsneytis, jarðvarmaverkefna og stærri verkefna á mannvirkjasviði.
Takmarkið er að auðvelda enn frekar samstarfið við íslenska viðskiptavini sem snýr meðal annars að þróun miðstöðvar grænna orkuverkefna fyrir ýmsar atvinnugreinar og á þann hátt skapa lausnir í sameiningu,“ segir Örn.
Hann segir að í kjölfar nafnbreytingarinnar muni COWI setja af stað herferð á Íslandi í því skyni að ráða fleiri sérfræðinga til starfa. Það sé hluti af fyrirhugaðri stækkun á íslenska markaðnum. Um tuga prósenta fjölgun mannaflans sé að ræða.
Samhliða breytingu vörumerkisins verða kynntar nýjungar fyrir starfsfólk. Þar ber hæst aukin réttindi starfsfólks í fæðingarorlofi.
„COWI verður fyrsta verkfræðistofan á Íslandi sem býður starfsfólki í fullu starfi sex mánaða fæðingarorlof á fullum launum,“ segir Örn.
„Ég er sjálfur fjögurra barna faðir og þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að fyrirtæki taki mið af aðstæðum fjölskyldufólks. Mörg fyrirtæki hafa tryggt foreldrum 80% af fullum launum í fæðingarorlofi.
Við munum gera betur og bjóða eins og fyrr sagði full laun í sex mánuði, bæði fyrir feður og mæður. COWI á að vera fjölskylduvænn vinnustaður. Þetta vonandi hvetur starfsmenn til að taka fæðingarorlof og það er okkar von að sem flestir nýti sér þetta tækifæri,“ segir Örn.
Í lykilhlutverki
Hann segir að á árinu sé útlit fyrir spennandi verkefni hér á landi. „Til dæmis gegnum við lykilhlutverki við byggingu nýja Landspítalans, uppbygging borgarlínunnar heldur áfram auk ýmissa verkefna tengdra vatnsaflsvirkjunum.
Það skiptir höfuðmáli að þekking sé fyrir hendi til að þjónusta jarðhita- og vatnsaflsverkefni og raforkuflutning. Einnig er vaxandi eftirspurn eftir þjónustu sem tengist vindorku og landeldi,“ segir Örn.
Hann segir að COWI sé með starfsemi í 35 löndum. Þungamiðjan sé þó á Norðurlöndum. „Starfsemin er dreifð um allan heim. Við erum með sterka stöðu í Bretlandi, Indlandi, Norður-Ameríku og í Asíu. Í Færeyjum og Grænlandi fer verkefnum einnig fjölgandi. Með sameiningunni opnast miklir möguleikar á verkefnum fyrir okkar starfsfólk.“
Örn segir að áherslan á sjálfbærni sé þung hjá COWI. Stefna fyrirtækisins sé að innan fjögurra ára eigi öll verkefni á einn eða annan hátt að stuðla að sjálfbærni.
Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu þegar kaup COWI á Mannviti voru tilkynnt starfar COWI til að mynda ekki fyrir fyrirtæki sem vinna olíu eða gas úr jörðu. Það er hluti af sjálfbærnivegferð félagsins.
Spurður að lokum um viðtökur við samrunanum segir Örn þær hafa verið góðar. „Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. Bæði starfsmenn og viðskiptavinir hafa séð möguleikana í þessu og við höfum skýra sýn gagnvart báðum hópum.
Við munum nýta tækifærið núna til að koma nýjum verkefnum af stað og halda áfram með þau sem þegar eru í gangi. Við erum mjög sátt og þakklát fyrir góðar viðtökur,“ segir Örn að endingu.
Heimild: Mbl.is