Home Fréttir Í fréttum Húsafriðunarnefnd getur ekki staðið undir kostnaði við viðhald friðaðra kirkna

Húsafriðunarnefnd getur ekki staðið undir kostnaði við viðhald friðaðra kirkna

63
0
Kirkjan á Dagverðarnesi á Fellsströnd er ein þeirra sem þarfnast viðhalds. Í sókninni eru 21 sóknarbarn en einnig önnur kirkja sem þarfnast viðhalds. skjáskot – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Fækkun í Þjóðkirkjunni kemur niður á tekjum sókna og viðhaldi kirkna. Sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir Húsafriðunarsjóð ekki geta staðið undir viðhaldi án mótframlags frá eigendum bygginganna.

<>

Á landinu eru 215 friðaðar kirkjur. Í um 90 sóknum eru færri en 50 sóknarbörn og tekjur sóknarinnar því vel innan við milljón á ári. Fámennar sóknir eiga erfitt með að fjármagna viðhald á kirkjum eins og greint var frá á jóladag.

Þjóðkirkjan sér ekki um viðhald kirkna

Undir rekstrarstofu Þjókirkjunnar starfar fasteignasvið, en það sér þó einungis um eina kirkju. Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar segir Þjóðkirkjuna ekki koma með beinum hætti að rekstri kirkna. „Þjóðkirkjan hvorki á eða rekur kirkjur víðsvegar um landið. Þjóðkirkjan er bara með Skálholtskirkju í sínum rekstri en annars eru það sóknarnefndir á hverjum stað sem eiga og reka kirkjubyggingar.“

Fækkun í Þjóðkirkjunni hafi áhrif á rekstur sókna, ekki rekstur Þjóðkirkjunnar

Birgir segir áhrifa fækkunar í Þjóðkirkjunni gæta mest í sóknunum sem tapa sóknargjöldum. Kirkjan ráðstafar 10% af framlagi sínu, um 430 milljónum, til Jöfnunarsjóðs sem styður sóknarnefndir í að viðhalda kirkjum. Það svarar ekki einu sinni til helmings af þörfinni.

Kirkjur oft íburðarmestu byggingar í sveitum

Pétur H Ármannsson, sviðsstjóri hjá minjastofnun Íslands segir varðveislu kirkjubygginga eitt brýnasta verkefni byggingararfs Íslendinga. „Í hverju byggðalagi þá er kirkjan kannski sú bygging sem í var lagður mestur metnaður á sínum tíma og líka kannski þær byggingar sem fólk tengist mest tilfinningalegum böndum.“

Húsafriðunarsjóður getur ekki staðið undir kostnaðinum

Margar af þessum byggingum séu orðnar of litlar fyrir helgihald eins og það hefur þróast. Um þriðjungur af styrkjum frá Húsafriðunarsjóði rennur til kirkjubygginga. „Það er ljóst að Húsafriðunarsjóður miðað við núverandi fjárveitingar getur engan veginn staðið undir öllu viðhaldi á kirkjunum ef sóknirnar geta ekki komið með neitt mótframlag.“ Á síðustu árum hafa margar kirkjubyggingar verið gerðar vandlega upp en gera þarf ráð fyrir áframhaldandi viðhaldskostnaði.

Víða erlendis fá kirkjubyggingar ný hlutverk

Pétur segir vandamálið ekki séríslenskt og að víðar um Evrópu séu kirkjubyggingar að fá nýtt hlutverk. „Við höfum dæmi um það hér á landi að kirkjur hafa veirð teknar undir annars konar starfsemi, gistingu eða vinnustofur.“ Frá sjónarhóli Minjastofnunar skipti mestu máli að byggingar séu í notkun og gagnist fólki.

Heimild: Ruv.is