
Gert er ráð fyrir því að húsnæði leikskólans Sunnuhvols í Garðabæ og steinhús, sem stendur við Barnaskóla Hjallastefnunnar á landi Vífilsstaða, verði notuð sem skiptimynt upp í gatnagerðargjöld vegna meðferðarheimilis fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda, sem rísa á í Rjúpnahlíð fyrir ofan Vífilsstaði.
Þessi skipti eru hluti af samkomulagi ríkisins og Garðabæjar um skipulag og enduruppbyggingu Vífilsstaða sem kynnt hefur verið.
Deilur hafa staðið yfir á milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og sveitarfélagsins vegna kostnaðar við gatnagerð á svæðinu árum saman og strandaði málið í raun í ráðuneytinu lok árs 2023.
Á meðan hefur bygging nýs meðferðarheimilis beðið, en viljayfirlýsing vegna staðsetningar þess í Garðabæ var undirrituð í lok árs 2018.
Ekkert var unnið að úrlausn málsins í eitt og hálft ár, en það var ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að krefjast svara um stöðuna í mars á þessu ári að skriður komst á málið.
Heimild: Mbl.is











