Búið er að steypa um helminginn af annarri gólfplötu af þremur í nýjum bílastæðakjallara við nýjan meðferðarkjarna Landspítalans.
Hér fyrir ofan má sjá loftmynd af stöðu verksins sem tekin var með dróna í fyrradag. ÞG Verk varð hlutskarpast í útboði vegna bílastæðakjallarans og voru samningar undirritaðir 12. júní sl.
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir verklok áformuð 30. september á næsta ári. Um 7.000 rúmmetrar af steypu fari í verkið eða álíka mikið og í 100 íbúða fjölbýlishús.
Sjö milljónir á bílastæði
Kostnaður við verkið er um 1.400 milljónir króna að viðbættum virðisaukaskatti. Um 200 bílastæði verða í húsinu og kostar hvert stæði því um sjö milljónir að viðbættum virðisaukaskatti.
„Þetta er mikið steypuvirki en húsið er mun rammgerðara en venja er. Þessar byggingar allar saman eru sterkbyggðar m.t.t. jarðskjálftaálags og slíkra þátta,“ segir Þorvaldur um bílakjallarann og nálæg mannvirki nýja Landspítalans.
Hann verður á tveimur hæðum og verður innkeyrslan hjá girðingunni sem nú skilur milli framkvæmdasvæðisins og aðliggjandi bílastæða ofanjarðar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is