Home Fréttir Í fréttum Hefur lagt ó­lög­lega án at­huga­semda í 34 ár

Hefur lagt ó­lög­lega án at­huga­semda í 34 ár

121
0
Reykjavíkurborg segir að íbúinn hafi aldrei fengið leyfi til að leggja á lóð sinni, þrátt fyrir að hann hafi gert það í áraraðir án athugasemda. VÍSIR/VILHELM

 

<>

Íbúi við Njálsgötu í Reykjavík er ósáttur við að borgin vilji banna honum að leggja á lóðinni sinni eins og hann hefur gert athugasemdalaust í 34 ár. Íbúinn málaði sjálfur gular línur á gangstéttina til að koma í veg fyrir að fólk legði í almenn bílastæði borgarinnar framan við heimatilbúið „einkastæði“ hans. Kærunni hefur verið vísað frá þar sem borgin hefur enn sem komið er ekki beitt þvingunaraðgerðum.

Í úr­skurðinum kemur fram að kærandinn hafi átt ein­býlis­húsið á Njáls­götu í á þriðja ára­tug. Ekki er gert ráð fyrir bíla­stæðum innan lóðar í gildandi deilu­skipu­lagi frá 2013 en eig­andinn segist hafa nýtt hluta lóðar sinnar sem bíla­stæði allt frá árinu 1989, eða í 34 ár.

Hann segir að Reykja­víkur­borg hafi ekki gert við það at­huga­semdir. Þá hafi starfs­menn borgarinnar gul­merkt kant gang­stéttar fyrir framan bíla­stæðið, sem hann hafi þó í fyrstu merkt að eigin frum­kvæði, og með því viður­kennt rétt sinn til að nýta um­ræddan lóðar­part með þessum hætti.

Segjast aldrei hafa sam­þykkt bíla­stæðin

Eig­andi hússins fékk bréf frá byggingar­full­trúa í Reykja­vík þann 13. júlí síðast­liðnum. Kom þar fram að á­bending hefði borist um það að hann væri búinn að út­búa inn­keyrslu frá Njáls­götu inn á lóð sína, á­samt því að gul­merkja kannt og al­menn bíla­stæði í götu.

Kæranda var gert að láta af akstri inn á lóðina og lagningu bíla og enn­fremur að loka fyrir innakstur. Var eig­andanum veittur fjór­tán daga frestur til að koma að and­mælum sem hann og gerði. Þá kom fram að myndi hann ekki sinna þessum til­mælum yrði tekin á­kvörðun um fram­hald málsins.

Íbúinn bendir á að Reykjavíkurborg hafi sjálf gulmerkt kantinn við bílastæði á lóðinni.
VÍSIR/VILHELM

Þá fékk eig­andinn tölvu­póst í ágúst frá starfs­manni á skrif­stofu stjórn­sýslu og gæða á um­hverfis-og skipu­lags­sviði Reykja­víkur­borgar. Þar var í­trekuð sú krafa að hann léti af akstri inn á lóðina og um leið til­kynnt að borgin hygðist fjar­læga gul­merkingar af götunni og gang­stéttar­kanti.

Þá var honum leið­beint um það að hann gæti kært á­kvörðunina til úr­skurðar­nefndar-um­hverfis og auð­linda­mála, auk þess sem honum var bent á að hann gæti kannað hjá skipu­lags­full­trúa í Reykja­vík hvort hægt væri að breyta deilu­skipu­lagi og fá bíla­stæðin með því sam­þykkt.

Borgin bar fyrir sig við nefndina að ekki virðist um það deilt að bíla­stæðin tvö á Njáls­götu hafi aldrei verið sam­þykkt af byggingar- eða skipu­lags­yfir­völdum. Þá sé fyrir­komu­lag lóðarinnar ekki í sam­ræmi við sam­þykkta upp­drætti í byggingar­reglu­gerð.

Ljóst sé að ó­heimilt sé að leggja bílum inn á einka­lóð ef skipu­lag geri ekki ráð fyrir því. Þá sé stað­setning bíla­stæðanna á lóðinni á þann veg að tvö ská­hallandi al­mennings­stæði í götu séu ó­not­hæf.

Í niður­stöðu úr­skurðar­nefndar um­hverfis- og auð­linda­mála segir að af fyrir­liggjandi gögnum verði ekki ráðið að tekin hafi verið á­kvörðun um hugsan­lega beitingu þvingunar­úr­ræða byggingar­full­trúans gegn eig­andanum á Njáls­götu. Því liggi ekki fyrir nein kæran­leg á­kvörðun í málinu sem bindur enda á málið.

Heimild: Visir.is