
Boðað er til samkeppni um nafn á nýja skrifstofubyggingu Alþingis að Tjarnargötu 9. Samkeppnin er opin almenningi og verður tilkynnt um niðurstöðuna á fullveldisdaginn, 1. desember.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis, en þar segir einnig að ráðgert sé að nýbyggingin verði tekin í notkun á næstu vikum.
Í dómnefnd um nafnið verður undirnefnd forsætisnefndar um nýbyggingu, ásamt skrifstofustjóra Alþingis. Þá sitja Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, varaforsetarnir Líneik Anna Sævarsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri í dómnefndinni. Sérfræðingar skrifstofunnar verða dómnefndinni til aðstoðar.
Flest nöfn tengjast sögu hússins
Löng hefð er fyrir nafnagjöf húsa í eigu þingsins á Alþingisreit. Flest húsin eru uppgerð eldri hús og bera nöfn þeirra vitni um sögu húsanna og þeirra sem þau byggðu. Þar má nefna Kristjánshús, Blöndahlshús, Skjaldbreið, Skúlahús og Þórshamar.
Yngsta húsið á reitnum áður en nýbyggingin kom til sögunnar er Skáli, sem er þjónustubygging Alþingis en það hús var tekið í notkun fyrir 21 ári – haustið 2002.
Frestur til að skila inn tillögum er til 7. nóvember og mun dómnefnd ljúka störfum fyrir 1. desember. Hægt er að senda inn tillögu að nafni hér.
Heimild:Mbl.is