Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Fjöldi nýrra íbúða heldur ekki í við mannfjöldaþróun

Fjöldi nýrra íbúða heldur ekki í við mannfjöldaþróun

137
0
Nýbyggingar að Hlíðarenda í Reykjavík. RÚV – Ragnar Visage

Tæplega þrjú þúsund nýjar íbúðir komu inn á fasteignamarkaðinn í fyrra, en hefðu þurft að vera um 4.500 til þess að mæta fjölgun íbúa. Íbúðaverð hefur lækkað að raunvirði á höfuðborgarsvæðinu, en hækkað á landsbyggðinni.

<>

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um tvö prósent síðastliðna tólf mánuði, en að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunverð lækkað um 5,3 prósent. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fasteignamarkaðinn.

Íbúðaverð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur lækkað um 5,8 prósent að raunvirði síðustu tólf mánuði. Annars staðar á landinu hefur verð hins vegar hækkað um átta prósent, eða 0,2 prósent að raunvirði.

Í skýrslunni kemur fram að tæplega þrjú þúsund nýbyggðar íbúðir hafi komið inn á markaðinn í fyrra, á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um ríflega 11.500. TIl að mæta þessari íbúafjölgun hefðu hins vegar rúmlega 4.500 nýjar íbúðir þurft að koma inn á markað í fyrra.

Miðað við þróunina verða íbúar landsins orðnir ríflega 400 þúsund í lok árs, og samhliða því eykst þörf fyrir fleiri nýjar íbúðir, segir í skýrslunni.

Tæplega 3.200 íbúðir eru til sölu á landinu öllu um þessar mundir, þar af rúmlega 1.900 á höfuðborgarsvæðinu. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru tæplega 700 íbúðir til sölu en um 570 annars staðar á landinu.

Um þriðjungur þeirra íbúða sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess eru nýbyggingar, en annars staðar á landinu eru aðeins 13 prósent þeirra íbúða sem eru til sölu nýjar.

Heimild: Ruv.is