Home Fréttir Í fréttum Kópavogsbær þarf að greiða 1,4 milljarða í Vatnsendamáli

Kópavogsbær þarf að greiða 1,4 milljarða í Vatnsendamáli

59
0
Málið snerist um eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Kópavogsbæ til að greiða 1,4 milljarð króna í tengslum við deilur um Vatnsenda.

<>

Dómurinn, sem hefur ekki verið birtur, féll í héraðsdómi í dag en Kópavogsbær greinir frá málinu í tilkynningu. Samkvæmt dóminum ber Kópavogsbæ að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, syni Þorsteins heitins Hjaltested sem hafði höfðað málið upprunalega, 1,4 milljarða króna ásamt vöxtum auk þess sem viðurkennd var skylda bæjarins til að greiða skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli í landi Vatnsenda.

Þá bæri bænum að skipuleggja byggingareit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýli, skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 134, skipuleggja tvær lóðir í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 241a, að veita Magnúsi Pétri einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé innan Lækjarbotnalands frá Fossvallarétt og ofan hennar, og að lokum að greiða kostnað við stofnun lóða í heimalandi Vatnsendabýlis, á Vatnsendabletti 134 og á Vatnsendabletti 241.

Málið á sér langa forsögu en það snýr að eignarnámi sem gert var í Vatnsendalandi árin 1992, 1998, 2000 og 2007.

Hluti erfingja Sigurðar Hjaltested, fyrrum ábúanda á Vatnsenda, stefndu bænum fyrst vegna þessa fyrir rúmum áratugi en Kópavogsbær var sýknaður af 75 milljarða krónu kröfu erfingjanna í Landsrétti í fyrra og staðfesti Hæstiréttur sýknu í ár.

Þann 28. maí 2018 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu Þorsteins en hann var þá ábúandi jarðarinnar. Gerði hann kröfu um að Kópavogsbær greiddi honum frekari eignarnámsbætur vegna eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007.

Aðalkrafa Þorsteins var að fjárhæð kr. 5.631.000.000 og til viðbótar var gerð krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum sem byggt er á að leiði af eignarnámssátt frá 30. janúar 2007.

Þorsteinn Hjaltested hafði tvívegis áður stefnt Kópavogsbæ fyrir dóm vegna eignarnámsins árið 2007 en í bæði skiptin var málunum vísað frá dómi.

Heimild: Vb.is