Home Fréttir Í fréttum Hornfirðingar uggandi vegna álfakirkju sem á að sprengja

Hornfirðingar uggandi vegna álfakirkju sem á að sprengja

76
0
Topphóll stendur við innkeyrsluna til Hornafjarðar RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Í Hornafirði stendur til að sprengja og ryðja burt snotrum hól með stuðlabergi til að rýma fyrir nýjum vegi. Samkvæmt gamalli trú heimamanna á að vera álfakirkja í hólnum og sumir þeirra undrast að vegurinn verði ekki lagður fram hjá honum.

<>

Í Hornafirði er verið að leggja nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót og verður hann mikil samgöngubót. Á einum stað liggur vegstæðið í gegnum ávala hæð, sem kallast Topphóll. Þessi hóll þarf að víkja fyrir veginum og á mánudag var farið með gröfu á hólinn til að skafa jarðveginn utan af honum svo hægt sé að sprengja.

Þyrfti bara að hnika veginum til um 20 metra
Snævarr Guðmundsson landfræðingur er einn þeirra Hornfirðinga sem hefðu vilja bjarga hólnum. „Ég veit til þess að mörgum Hornfirðingum er mjög órótt um að það eigi að sprengja þennan hól. Því að í þeirra barnsminni var hér um að ræða álfakirkju. Og í örnefnaskrá er Topphóll skráður sem álfakirkja.“

Í hólnum er stuðlaberg sem er fáséð á þessu svæði og ummerki um hvernig jöklar ísaldar ruddu landið og mótuðu hólinn. „Þegar við horfum hér yfir vegstæðið þá sjáum við að það þarf ekki að hnika þessum vegi mikið til að bjarga hólnum. Það þarf ekki að færa hann nema um kannski 20 metra eða svo,“ segir Snævarr.

Ógerlegt að staðfesta að „álfakirkjan“ sé orðin hundrað ára
Sveitarfélagið Hornafjörður reyndi nýverið að beita sér til að bjarga hólnum en Vegagerðin sagði það of dýrt, kalla á enn meira eignarnám og tafir.

Í umhverfismati vegna vegarins sem lauk 2009 kom ekki fram að hólinn hefði sérstakt gildi sem minjastaður en í byrjun árs vöktu heimamenn athygli Minjastofnunar á því sem væri í uppsiglingu.

Minjastofnun sagði ljóst að Topphóll hefði tilfinningalegt gildi. Munnmæli um álfakirkju gætu verið eldri en hundrað ára en ógerlegt að staðfesta það. Sökum óvissu um aldur minjanna og vegna þess að þær voru ekki skráðar og framkvæmdir langt komnar heimilaði Minjastofnun að hóllinn víki.

Heimild: Ruv.is