Kaup og uppsetning á ítölskum lömpum í skólastofur í tveimur grunnskólum í Reykjanesbæ kostaði sveitarfélagið rúmar 48 milljónir króna. Verktakar sögðu að vel hefði verið hægt að kaupa og setja upp ódýrari ljós í skólastofurnar.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir í svari við fyrirspurn mbl.is að ljósin hafi í heild kostað um 48 milljónir, en kostnaður við hvert ljós nam á annað hundrað þúsund krónur.
Grunnskólarnir sem um ræðir eru Myllubakkaskóli og Holtaskóli en framkvæmdir hafa staðið yfir við skólana um einhverja hríð. Hefur bærinn neyðst til að ráðast í töluverðar lántökur vegna framkvæmda síðastliðinna missera.
Verktakar bentu á háan kostnað
Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu verktakar, sem sáu um uppsetningu á lömpunum, bent bænum á að hægt væri að koma upp lýsingu í skólastofurnar á mun hagstæðari hátt með því að kaupa inn ódýrari lampa, sem hafa nýst vel í grunnskólum víðs vegar um landið.
Ljósin sem sett voru upp í skólastofunum voru frá ítalska framleiðandanum Iguzzini.
Ljósin kostuðu, ef vinna við uppsetninguna er talin með, 156.000 krónur stykkið og voru í heildina settir upp 308 lampar í 55 skólastofum. 214 lampar voru settir upp í Holtaskóla og 94 lampar í Myllubakkaskóla.

Falleg hönnun hafði vægi við valið
Í svari Guðlaugs segir að kostnaður við verkið hafi verið ræddur og vandlega hafi verið farið í gegnum málið. Meðal annars hafi verið ráðist í verðkönnun og borið saman verð á vönduðum dimmanlegum lömpum.
Hann telur að ef farið hefði verið þá leið að kaupa minni lampa hefði þurft að fjölga lömpum og kostnaðurinn jafnvel ekki verið neitt lægri.
Falleg hönnun lampanna hafði þó jafnframt vægi við val á lömpum samkvæmt svari Guðlaugs sem og innivistarþátturinn, sem hann segir afar mikilvægan í verkefnum sem þessum.
„Ljósvist og heilbrigð lýsing ásamt loftgæðum og hljóðvist eru lykilþættir í að það takist að skapa gott umhverfi fyrir börnin að stunda grunnskólanámið sitt í og hefur verið horft mjög til þessara þátta við hönnun og framkvæmd, en með stífa kostnaðargátt frá verkefnisstjóra og verkkaupa,“ segir í lok svars Guðlaugs.
Heimild: Mbl.is












