Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Byrjað að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli

Byrjað að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli

148
0
Pólskur verktaki frá framleiðanda hússins sér um að reisa stálgrindina Mynd: RÚV – Ágúst Ólafsson

Loks eru hafnar framkvæmdir við að reisa stálgrind í nýrri viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Löng bið eftir efni í húsið hefur seinkað framkvæmdum um marga mánuði.

<>

Síðasta sumar var lokið við að steypa gólfið í 1000 fermetra stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli og síðan þá hefur lítið gerst. Erfiðlega gekk að flytja til landsins stálbita og annað efni í húsið og hefur framkvæmdum seinkað um níu mánuði vegna þess. Loksins er allt efni komið og pólskur verktaki frá framleiðanda hússins kominn á fullt við að reisa stálgrindina.

„Þetta er bara frábært skref“
„Þetta er bara frábært skref,“ segir Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi. „Nú er stálið loksins komið og þetta gengur vel. Núna er stálgrindin að koma upp, svo verður sett klæðning utan á stálgrindina og það á að klárast um miðjan ágúst. Svo verður bara farið í að græja húsið að innan.“

Mynd: RÚV – Ágúst Ólafsson

Endurbætur á núverandi flugstöð í kjölfarið
Áætlað er að viðbyggingin verði fullinnréttuð og hægt að afgreiða farþega þar í lok þessa árs. Þá verður hafist handa við að breyta núverandi flugstöð, en þar er um 700 fermetra aðstaða í tveimur sölum. „Það á að breyta gamla komusalnum í nýjan innritunarsal, sem verður bæði fyrir innanlandsflug og millilandaflug. Núverandi innritunarsalur breytist í komusal fyrir innalandsflug. Þannig að starfseminni í húsinu verður í rauninni snúið við.“

Millilanda- og innanlandsflug aðskilið
Núna leggur millilandaflugið að mestu undir sig alla núverandi flugstöð, en eftir þessar breytingar verða tveir aðskildir salir fyrir innanlands- og millilandaflug. Því segir Hjördís að öll aðstaða verði mun betri og afgreiðslan hraðari. “Mikil bæting fyrir farþega og starfsmenn. Þetta verður allt annað.“

Heimild: Ruv.is