Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Neskaupstaður: Módulhúsin í Víkinni risin

Neskaupstaður: Módulhúsin í Víkinni risin

224
0
Framkvæmdum að ljúka við að reisa húsin í Víkinni. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

Það er mikið byggt í Neskaupstað um þessar mundir og á það bæði við um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Hátt í 30 íbúðir hafa verið í byggingu á þessu ári en 16 þeirra eru í tveimur svonefndum módulhúsum sem rísa í Víkinni að Hafnarbraut 38 og 40.

<>

Síldarvinnslan hf. og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) hafa haft samvinnu um byggingu húsanna tveggja í samráði við fyrirtækið Hrafnshól.

Módulhús eru einingahús sem hafa þann kost að byggingartími er skammur.

Einingarnar eru smíðaðar í Eistlandi og komu til Neskaupstaðar í desembermánuði sl. Þá ber að nefna að góð reynsla er af þessum húsum í Norður-Noregi en þar þurfa hús að uppfylla strangari kröfur en gerðar eru í íslenskri byggingareglugerð.

Í húsunum eru íbúðir af tveimur stærðun; annars vegar um 40 fermetrar og hins vegar um 80 fermetrar.

Segja má að Víkin hafi tekið miklum breytingum um nýliðna helgi en þá risu bæði húsin. Einn dag tók að reisa hvort hús. Á næstunni verður síðan unnið við að fullgera húsin og verður þá meðal annars komið fyrir svölum á suðurhlið þeirra og inngangi í íbúðir á efri hæð á norðurhlið. Ráðgert að reisa bílskúra sem munu tilheyra stærri íbúðunum í húsinu að Hafnarbraut 40.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi R. Gíslasyni, framkvæmdastjóra SÚN, eru flestar íbúðirnar þegar seldar í húsunum en þeir sem hafa áhuga á íbúðakaupum er bent á að hafa samband við Hrafnshól.

Heimild: Svn.is