Á fundi bæjarstjórnar Árborgar, sem fór fram í dag voru meðal annars kynnt drög að aðgerðaráætlun í samræmi við samkomulag innviðarráðherra og bæjarstjórnar um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit með sveitarfélaginu vegna 27 milljarða skulda þess.
Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar fór yfir aðgerðaráætlunina, sem var samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum.
Þar kemur m.a. fram að það á að selja eignir og byggingalóðir fyrir 800 milljónir króna á árinu 2023 og það á að byrja að rukka fyrir jarðvegsúrgang á jarðvegstipp sveitarfélagsins á Selfossi, sem á að gefa bæjarfélaginu 30 milljónir króna í tekjur árlega. Þá er átt við garðaúrgang, gras, trjágróður og þess háttar.
Þá hefur 57 starfsmönnum sveitarfélagsins verið sagt upp eins og kunnugt er og um leið voru gerðar breytingar á launakjörum og ráðningahlutföllum um 40 annarra starfsmanna til viðbótar.
Deildir verða sameinaðar og einhverjar lagðar alveg niður eins og upplýsingadeildin. Unnið er að sameiningu og tilfærslu á stofnunum til að nýta húsnæði sveitarfélagsins betur og mötuneyti verði sameinuð á árinu 2023 svo eitthvað sé nefnt.
Heimild: Visir.is