Home Fréttir Í fréttum Aukin eftirspurn eftir vinnuafli í byggingarstarfsemi

Aukin eftirspurn eftir vinnuafli í byggingarstarfsemi

84
0
Hlutfall lausra starfa eftir ársfjórðungum. Mynd: Hagstofan

Alls voru 6.220 laus störf á íslenskum vinnumarkaði á fjórða ársfjórðungi 2022 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 230.800 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því 2,6% (sjá öryggisbil í töflu).

<>

Til samanburðar töldust að meðaltali 7.200 einstaklingar atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2022 eða um 3,3% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Samanburður við fjórða ársfjórðung 2021 sýnir að fjöldi lausra starfa jókst um 850 á milli ára og hlutfall lausra starfa jókst um 0,2 prósentustig.

Hlutfallsleg eftirspurn eftir starfsfólki var mest í atvinnugreininni byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Laus störf í atvinnugreininni voru 1.470 talsins og hlutfall lausra starfa 8,1%.

Samanburður við fjórða ársfjórðung 2021 sýnir að lausum störfum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fjölgaði um 590 á milli ára og hlutfall lausra starfa jókst um 2,4 prósentustig.

Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn sem nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu á viðmiðunardegi rannsóknarinnar. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir fjórða ársfjórðung 2022 var 15. nóvember 2022. Fjöldinn í nettó úrtaki var 549 og svarhlutfall 99,6%.

Upplýsingar um fjölda mannaðra starfa byggja á staðgreiðslugögnum Hagstofu Íslands sem sífellt eru í endurskoðun og uppfærslu. Tölur um fjölda mannaðra starfa eru festar þegar tólf mánuðir hafa liðið frá viðmiðunartímabili talnanna. Eftir þann tíma eru þær metnar áreiðanleg lýsing á þýðistölum. Fyrirhugað er að endurskoða tölurnar á þriggja ára fresti ef markverðar breytingar hafa orðið á eldri tölum.

Við túlkun á fjölda og hlutfalli lausra starfa þarf að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða. Því þarf að hafa 95% öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.

Talnaefni

Heimild: Hagstofan.is