Home Fréttir Í fréttum Bæjarstjórinn í skýjunum með að fá til sín stærsta kvikmyndaver landsins

Bæjarstjórinn í skýjunum með að fá til sín stærsta kvikmyndaver landsins

209
0
RÚV – Facebook

Bæjarráð Hafnarfjarðar veitti í morgun fyrirtækinu REC Studio ehf vilyrði fyrir 90 þúsund fermetra svæði þar sem reisa á stærsta kvikmyndaver landsins. „Þetta er gríðarlega spennandi fyrir okkur Hafnfirðinga,“ segir bæjarstjórinn.

<>

Forsvarsmenn REC Studio komu á fund bæjarráðs í morgun og kynntu hugmyndir sínar. Í kynningu segir að félagið hafi verið í góðum samskiptum við fulltrúa helstu framleiðslufyrirtækja landsins sem öll hafi hagsmuni af því að fullbúið kvikmyndaver rísi hér sem fyrst.

Þetta eru meðal annars framleiðslufyrirtækin Truenorth, Saga Film, Pegasus og Frostfilm.

Þá segir að staðsetning og nánasta umhverfi skipti verulegu máli og að gera verði ráð fyrir umtalsverðu rými á lóð myndversins fyrir ýmiskonar búnað hverju sinni. Þá megi staðsetningin ekki vera ofan í þungri umferð eða of háværri framleiðslu.

Rósa Guðbjartsdóttir. Mynd:  RÚV

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir á Facebook-síðu sinni að ákveðið hafi verið að gefa kvikmyndaverinu vilyrði fyrir lóð á um það bil 90 þúsund fermetra svæði í Hellnahrauni 4. „Við erum í skýjunum með þetta,“ segir Rósa í samtali við fréttastofu. „Þetta er bara akkúrat það sem okkur hefur vantað, eitthvað fyrir unga fólkið og þá sem eru að mennta sig í skapandi greinum.“

Rósa segir þetta hafa átt sér nokkurn aðdraganda. Forsvarsmenn REC Studio hafi sett sig í samband við bæjarfélagið fyrir nokkrum misserum og í framhaldinu hafi hafist leit að hentugu svæði. Og nú hafi náðst samkomulag um lóðina í Hellnahrauni.

Rósa skrifar á Facebook að kvikmyndaiðnaðurinn sé blómleg atvinnugrein og þarna geti orðið til hundruð góðra starfa, aukin athygli og viðskipti í Hafnarfirði. „Þetta er gríðarlega spennandi fyrir okkur Hafnfirðinga,“ skrifar bæjarstjórinn.

Heimild: Ruv.is