Landeldi hf. og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. hafa skrifað undir verksamning um borun á 30 sjóholum í Þorlákshöfn sem verða allt að 100 metrar á dýpt. Jafnframt er stefnt á borun á ferskvatnsholum og mæli- og vöktunarholum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Þar segir að samningurinn tryggir Landeldi hraunsíaðan sjó fyrir allan fyrsta áfanga félagsins, en honum er ætlað að skila 7.300 tonnum af heilum laxi á ári. Fullbyggð landeldisstöð er áætlað að skili 20 þúsund tonna framleiðslu á ári.
Verktíminn vegna sjóholanna er áætlaður 15 mánuðir. Borinn Saga notaður til verksins og verður hafist handa á komandi vikum.
Ræktunarsambandið skuldbindur sig til að fjárfesta í rafmagnspressum og Landeldi til að útvega raforku til verksins. Fullyrt er í tilkynningunni að „með þessu er olíu skipt út fyrir raforku í borverkinu að stórum hluta, sem er nýjung hér á landi í borun á sjóholum. Samningurinn er einn umhverfisvænasti sinnar tegundar og liður í vegferð beggja fyrirtækja að settu markmiði í umhverfismálum.“
Stærsti samningurinn
„Við höfum þegar borað 20 holur fyrir Landeldi síðan 2020 og samstarfið verið bæði gott og lærdómsríkt. Samningurinn er því eðlilegt framhald til að ná fram sem bestum lærdómi og hagræðingu í borverkinu með tilliti til þarfa laxeldisins.
Samningurinn er sá stærsti sem Ræktunarsambandið hefur gert við einstakan aðila í borholum hingað til og kallar á aukin umsvif hjá Ræktunarsambandinu með frekari mannaráðningum,“ Guðmundur Á. Böðvarsson, framkvæmdastjóri Ræktunarsambandsins.
„Með þessum samningi tryggir Landeldi sér aðgang að sjó til að rækta um 8 til 10.000 tonn af laxi árlega. Ræktunarsambandið hefur stutt vel við Landeldi síðustu árin og sameiginlega hafa félögin þróað töluverða nýbreytni við hönnun á sjóholum með virkilega góðum árangri.
Í þessum stóra samningi munum við færa okkur úr olíudrifnum loftpressum í rafmagns loftpressur sem hefur mikil áhrif á kolefnisfótspor hverrar holu og er það liður í þeirri vegferð Landeldis að velja eins og kostur er umhverfisvænar leiðir í uppbyggingu og rekstri félagsins,“ segir Heimir Ingimarsson, jarðfræðingur Landeldis.
Heimild: Mbl.is