Úkraínumaðurinn Volodymyr G. Pryvizentsev er rafmagnsverkfræðingur sem starfar fyrir íslensku verkfræðistofuna Verkís. Hann var viðstaddur er vatnsaflsstöðin Akhalkalaki í Georgíu var vígð við hátíðlega athöfn í síðustu viku.
Í samtali við mbl.is segir Volodymyr stöðina hafa mikla þýðingu fyrir svæðið og að þekking Íslendinga á endurnýtanlegum orkugjöfum hafi nýst vel við gerð vatnsaflstöðvarinnar.
Volodymyr kom fyrst til Íslands sumarið 2007 í starfsnám fyrir Rafteikningu, sem varð síðar að Verkís. Hann segir það hafa verið algjör draumur að starfa fyrir fyrirtækið, „þar sem að það var og er í fararbroddi með tilliti til reynslu og þekkingar í þróun endurnýjanlegrar orku, sérstaklega vatnsorku og jarðvarma“.
„Mér líkaði vel við Ísland og Íslendinga svo ég ákvað að vera þar áfram,“ segir Volodymyr en hann lærði alþjóðaviðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist með meistaragráðu þaðan árið 2010.
„Ég hafði trú á því að eftirspurn eftir fólki með þekkingu á verkfræði og viðskiptafræði yrði mikil í framtíðinni.“
Skrifstofa opnuð í Kænugarði
Árið 2010 opnaði Verkís skrifstofu í Kænugarði og lá því beinast við að Volodymyr flytti aftur til Úkraínu og gerðist forstöðumaður skrifstofu Verkís í Úkraínu. „Aðalmarkmiðið var að ganga frá samningum fyrir Verkís í ríkinu.“
Viðskipti í Úkraínu gengu hins vegar ekki eftir þar sem vatnsafl og jarðvarmaorka er af skornum skammti að sögn Volodymyrs og því leitaði hann til nágrannaríkja.
„Farsælasta landið á svæðinu fyrir þróun vatnsaflsstöðva var Georgía þar sem Verkís var með fjölmarga samninga.“
Hröð þróun
Árið 2016 var opnuð skrifstofa Verkís í Tíblisi, höfuðborg Georgíu, og var Volodymyr gerður að forstöðumanni fyrir svæðið.
Hann var ábyrgur fyrir viðskiptaþróun í Evrasíu, svæði sem sem nær yfir Kákasussvæðið (Georgíu, Armeníu, Aserbaídsjan), Mið-Asíu (Kasakstan, Kirgisistan, Tadsjikistan, Úsbekistan), Úkraínu og Rússlandi, áður en Úkraínustríðið hófst í febrúar.
Volodymyr segir að orkugeirinn í Georgíu hafi þróast ört síðan árið 2008 þegar ríkisstjórn Georgíu kynnti sérstakar ráðstafanir til að efla byggingu nýrra virkjana í landinu. Enn í dag reiðir ríkið sig þó að miklu leyti á jarðgas frá Aserbaídsjan og Rússlandi.
Fyrsta fjárfestingarverkefnið
Líkt og áður sagði var Volodymyr viðstaddur er vatnsaflsstöðin Akhalkalaki var vígð á laugardag. Verkís var í nánu samstarfi við Landsvirkjun við gerð stöðvarinnar og segir Volodymyr Akhalkalaki breyta miklu fyrir svæðið.
„Vatnsaflsstöðin mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir þróun þessa svæðis í Georgíu og tryggja rafmagn, störf og nýja innviði á svæðinu. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir þróun landsins. Verkefnið gerir miklar kröfur er kemur að samfélagslegri ábyrgð,“ segir Volodymyr og bætir við að þessi stöð sé fyrsta fjárfestingarverkefni Verkís erlendis af þessu tagi.
Uppsett afl stöðvarinnar er tæplega 10 MW og mun hún vinna um 50 GWst af endurnýjanlegri raforku árlega.
Eigendur verkefnisins eru þrír: Caucasus Clean Energy Holding, sem fjárfestir einungis í vatnsaflsvirkjunum í Georgíu, LPV Co, sem er í eigu Landsvirkjunar Power og verkfræðistofunnar Verkís og Hydro Energy, georgískt félag sem var stofnað sérstaklega um upphaflega þróun verkefnisins.
Volodymyr segir að lokum að Georgía bjóði upp á mikla ónýtta möguleika til að byggja upp vatnsafl og jarðhita. Þá sé að vænta stuðningsaðgerða frá stjórnvöldum til að laða að einkafjárfestingar.
Heimild: Mbl.is