Home Fréttir Í fréttum Svíar hita upp hús með brennslu sorps

Svíar hita upp hús með brennslu sorps

110
0
The Swedish recycling revolution
Um ein milljón húsa eru nú hituð upp með sorpi í Svíþjóð. Svíar endurvinna 47 prósent alls sorps og nota 52 prósent sorps sem til fellur til húshitunar. Einungis eitt prósent af sorpi í Svíþjóð er nú urðað á sorphaugum. Nýr hreinsibúnaður gerir að reykur frá sorpbrennslu er nú nær eiturefnalaus.

Orkufyrirtæki sem eru í almannaeigu brenna sorpið í sérstökum ofnum og sjá 950 þúsund heimilum fyrir hita til húshitunar víðs vegar um Svíþjóð. Þá framleiða sorpbrennslufyrirtækin rafmagn fyrir 260 þúsund heimili. Frá brennsluofnum orkufyrirtækjanna liggja neðanjarðarleiðslur sem flytja hita í helming allra hús í Svíþjóð. 19 prósent þess, sem brennt er, er sorp en einnig er brennt spýtnabraki og kurli frá skógræktarstöðvum og timburiðnaði.

<>

Reykur frá sorpbrennslum hefur til þessa verið mengaður með díoxíni og öðrum eiturefnum. Svíum hefur tekist að búa til mjög fullkomnar rafsíur sem hreinsa reykinn svo vel að hann samanstendur nær eingöngu af vatni og hættulausum lofttegundum.

Svíar eru nú fremstir þjóða í heiminum í nýtingu sorps til húshitunar en Tékkar, Danir, Norðmenn og Finnar fylgja þar fast á eftir. Með brennslunni vinnst það meðal annars að ekki þarf að fórna víðaáttumiklum landsvæðum til þess að urða þar sorp. Ruslið fæst frítt og það dregur úr orkuskostnaði húseigenda. Þessi orkuframleiðsla þykir svo vel lukkuð að farið er að flytja inn sorp frá Bretum og Norðmönnum, sem borga fyrir að losna við sorpið.

Sorpbrennsla til orkuframleiðslu þykir nú það vel lukkuð fyrir umhverfi og efnahag að Evrópusambandið hvetur nú aðildarríki sambandsins til að hefja nýtingu sorpsins að fordæmi Svía.