Home Fréttir Í fréttum Nýr spítali við Hringbraut ekki Efstaleiti

Nýr spítali við Hringbraut ekki Efstaleiti

201
0

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að áfram verði unnið að því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði nýverið að hann vildi kanna hvort skynsamlegt væri að reisa hið nýja hátæknisjúkrahús á lóð Ríkisútvarpsins við Efstaleiti.

<>

Forsendur fyrir nýbyggingum við Hringbraut hefðu breyst það mikið á síðustu árum að full ástæða væri til að kanna aðra möguleika. Kristján sagðist í sjálfu sér ekki hafa miklar skoðanir á yfirlýsingum Sigmundar um málið.

„Þetta er hugmynd sem hann verður sjálfur að svara fyrir. Og ber vitni um að það eru skiptar skoðanir um þessa staðsetningu sem liggur fyrir varðandi Hringbraut og það er hverjum frjálst að hafa sína skoðun á því,“ sagði heilbrigðisráðherra í viðtali við fréttamann Rúv.

„Ég vinn að þessu verkefni samkvæmt þeim lögum sem um þetta mál gilda og sömuleiðis eftir þeirri samþykkt sem Alþingi gerði með fjárlögum ársins 2015 og sömuleiðis þeirri þingsályktun sem liggur fyrir. En ekki síður þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við verkföll lækna á síðasta vetri.”

Aðspurður hvort hann muni þá áfram vinna að því að Landspítalinn rísi við Hringbraut kvaðst Kristján Þór að sjálfsögðu gera það.