Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir hjá Norðuráli upp á 16 milljarða

Framkvæmdir hjá Norðuráli upp á 16 milljarða

85
0
Mynd: Skessuhorn.is

Framkvæmdir eru nú hafnar við stækkun álverksmiðju Norðuráls á Grundartanga. Ekki stendur þó til að framleiða meira ál, en aukinn hluti framleiðslunnar verður hins vegar notaður í áframvinnslu í nýjum steypuskála sem byggður verður.

<>

Ístak er aðalverktaki við framkvæmdirnar en fjöldi annarra fyrirtækja kemur einnig að verkefninu sem áætlað er að kosti um 16 milljarða króna.

Það hefur að fullu verið fjármagnað með svokallaðri grænni fjármögnun Arion banka sem helgast af því hversu jákvæð umhverfisáhrif breytingin hefur í för með sér.

Þannig verður aukið virði þess áls sem verksmiðjan framleiðir hér, færri kolefnisspor stigin og fyrir afurðina fæst hærra verð á mörkuðum.

Eins og fram kom í viðtali Skessuhorns við Sigrúnu Helgadóttur framkvæmdastjóra Norðuráls á Grundartanga á síðasta ári, hyggst fyrirtækið nú taka í notkun nýja framleiðslulínu þar sem framleiddar verða álstangir eða sívalningar.

Eftir að stækkun verksmiðjunnar lýkur á fyrsta ársfjórðungi 2024 er áætlað að 40 varanleg störf verði til hjá fyrirtækinu. Talið er að við framleiðsluna megi spara orku sem nemur 40 prósentum með því að fullvinna verðmætara ál.

Fram til þessa hafa álhleifarnir verið fluttir til Evrópu, þeir bræddir og síðan mótaðir í álsívalninga. Nú á að færa þá framleiðslu upp á Grundartanga, auka þar verðmætasköpun en afurðin verður m.a. notuð til framleiðslu á bílum og ýmis konar tæknibúnaði.

Heimild: Skessuhorn.is