Home Fréttir Í fréttum Sigmundur Davíð vill að verktakar hlusti á gagnrýni á Hafnartorg og endurhanni

Sigmundur Davíð vill að verktakar hlusti á gagnrýni á Hafnartorg og endurhanni

164
0

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur að þeir sem ætla að byggja upp Hafnatorg í miðborg Reykjavíkur verði að hlusta á gagnrýni sem fram hefur komið á verkefnið og endurhanna reitinn með hliðsjón af þeim sjónarmiðum. Sigmundur Davíð hefur sjálfur lagt fram mikla gagnrýni á framkvæmdina, sagt hana vega að miðbænum og því yfirbragði sem þar er á byggðinn og kallað framkvæmdina skipulagsslys.

<>

Sigmundur Davíð segir í Morgunblaðinu í dag að ótækt sé að verktakar geti beðið með að sýna teikningar af fyrirhuguðum byggingum þangað til rétt áður en ætlunin er að samþykkja útlitið.

Það sé sérstaklega mikilvægt að breyta þessum vinnubrögðum þegar uppbygging í miðborg Reykjavíkur er annars vegar.

Myndir af þeim húsum sem fyrirhugað er að byggja á Hafnartorgi, norðan Lækjartorgs, birtust fyrst í fjölmiðlum snemma á þessu ári, mánuði eftir að skipulagsyfirvöld samþykktu framkvæmdina 8. desember síðastliðinn.

Sigmundur Davíð telur að þeir sem standa að uppbyggingu Hafnartorgs ættu að hægja á verkefninu og hlusta á gagnrýni á það.

Forsætisráðherra segir að hann hafi miklar skoðanir á málinu og hafi haft þær um nokkurt skeið. „Það er búið að vera viðvarandi vandamál mjög lengi að fólk fær ekki aðgang að þessum upplýsingum fyrr en það er komið það nálægt framkvæmdum að menn leyfa sér, þegar fram koma athugasemdir, að segja að það sé of seint. Það er fráleitt fyrirkomulag. Auðvitað skiptir útlit húsa máli, ekki síður en staðsetningin eða umfangið. Það á sérstaklega við miðbæinn, svæði sérstakrar byggingarlistar og sögu. Ég tel mikilvægt að menn breyti þessu og það er líka í anda þess sem menn gera kröfu um nú til dags; betri aðkomu almennings að ákvörðunum, betri upplýsingagjöf og gagnsæi.“

Þetta eru ekki einu deilurnar sem forsætisráðherra hefur blandað sér í varðandi framkvæmdir á þessum reit. Á síðasta ári ákvað Minjastofnun Íslands, sem heyrir undir forsætisráðuneytið, að skyndifriða hafnargarð sem er á lóðinni. Lóðarhafar höfðu sagt að friðlýsing á hafnargarðinum muni að lágmarki valda þeim 2,2 milljarða króna tjóni. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, var sett forsætisráðherra í málinu og tilkynnti um friðunina. Reykjavíkurborg hafði dregið í efa stjórnsýslulegt hæfi Sigmundar Davíðs til að taka afstöðu til málsins, meðal annars vegna greinar sem hann birti um skipulagsmál í Reykjavík í ágúst. Á endanum náðist sátt um að færa hafnargarðinn á meðan að framkvæmdir standa yfir en setja hann svo aftur upp. Áætlaður kostnaður verktaka við þá framkvæmd er um 500 milljónir króna og ætla þeir að sækja þann kostnað til ríkissjóðs fyrir dómstólum semjist ekki um greiðslu.

Heimild: Kjarninn.is