Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við stækkun og endurhönnun Bláa Lónsins ganga vel

Framkvæmdir við stækkun og endurhönnun Bláa Lónsins ganga vel

244
0

Það er tómlegt um að litast í Bláa Lóninu þessa dagana, en þar eru engir gestir og heldur ekkert lón. Búið er að dæla öllu vatninu úr lóninu sjálfu meðan að unnið er að stækkun þess, en stefnt er að því að opna á ný 22. janúar. Þá er ekki bara verið að stækka lónið sjálft heldur standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir við byggingu lúxushótels á svæðinu og stefnt er að opnun þess vorið 2017 eins og við höfum áður greint frá.

<>

Við settum okkur í samband við Magneu Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Bláa Lónsins og fengum hjá henni upplýsingar um þessar miklu framkvæmdir sem og myndirnar sem fylgja þessari frétt, en forsíðumyndina tók Oddgeir Karlsson. Á myndinni hér að neðan má sjá framkvæmdasvæðið og fyrirhugaða stækkun lónsins:

Magnea sagði að verkefnið hefði farið vel af stað: „Lónið var tæmt á þremur klukkustundum. Verkefnið sem er tæknilega flókið gekk því vonum framar.” Stækkun Bláa Lónsins er hluti af stærri verkefni sem felst í nýju hraun upplifunarsvæði og lúxus hóteli sem mun opna árið 2017. Stærra lón mun tengja lónssvæðið og nýtt upplifunarsvæði. Sigríður Sigþórsdóttir, Basalt Arkitektum, er aðalhönnður verkefnisins.

Hartmann Kárason, stýrir verkefninu og öðrum nýframkvæmdum Bláa Lónsins. Harmann sagði að verkefnið sem væri afar krefjandi hefði gengið vel. „Stór þáttur í því er hversu samstilltur og góður hópur fólks starfar að verkefninu, en alls koma um 100 starfsmenn að þessu spennandi verkefni,” segir Hartmann.

Stefnt er að því að opna endurnýjað og stærra lón þann 22. janúar 2016. Helstu breytingar verða eftirfarandi:
• Baðlón er stækkað um helming
• Nýr Skin Care bar mun auka aðgengi að hinum fræga, hvíta Blue Lagoon kísilmaska
• Nýtt spa-svæði fyrir Blue Lagoon spa-meðferðir
• Nýtt veitingasvæði
• Betri aðstaða fyrir gesti

Í frétt Bláa lónsins sem birtist 12. desember 2014, segir um framkvæmdirnar:

Stækkun og endurhönnun núverandi upplifunarsvæðis

Nýtt upplifunarsvæði verður byggt inn í hraunið vestur af núverandi lóni, og mun lónssvæðið sem nú bætist við tengja núverandi lón við hið nýja upplifunarsvæði og nýtt hótel.

Stækkun og endurhönnun núverandi upplifunarsvæðis er mikilvægur þáttur í uppbyggingunni, en lónið sjálft verður stækkað um helming. Ný og glæsileg aðstaða fyrir nuddmeðferðir sem boðið er upp á ofaní lóninu er hluti stækkunarinnar, nýr kísilbar og nýr bar þar sem gestir geta fengið sér hressingu. Hluti endurhönnunar felst einnig í enn betri hitastýringu á lóninu.

Með tilkomu hótelsins verður fyrsta flokks gisting hluti af upplifun Bláa Lónsins. Í hótelinu er gert ráð fyrir 60 herbergjum, veitingastað og fjölnota fundarsal. Verkefnið er í takt við þróun Bláa Lónsins undanfarin ár þar sem jafnt og þétt hefur verið unnið að því að auka úrval og gæði þjónustu.

Hönnun og arkitektúr

Sigríður Sigþórsdóttir, hjá Basalt arkitektum, er aðalhönnuður verkefnisins, en hún er arkitekt allra mannvirkja Bláa Lónsins. Sigríður hefur starfað með Bláa Lóninu í tæplega tvo áratugi eða allt frá því að undirbúningur að núverandi mannvirkjum hófst um miðjan tíunda áratuginn.

Hönnun Sigríðar fyrir Bláa Lónið hefur vakið athygli hér heima og erlendis, ekki hvað síst fyrir samspil hins manngerða og náttúrulega umhverfis.

Upplifunarhönnun er órjúfanlegur þáttur af hönnun Bláa Lónsins og hefur teymi starfsfólks Bláa Lónsins ásamt Sigurði Þorsteinssyni og fyrirtæki hans Design Group Italia, unnið að þeim þætti hönnunarinnar. Sigurður, sem er búsettur í Milano á Ítalíu hefur unnið með Bláa Lóninu undanfarin tuttugu ár og stýrt þróun vörumerkis, ímyndar og upplifunar í samvinnu við stjórnendur Bláa Lónsins.

150 störf á framkvæmdatíma

Heildarkostnaður vegna framkvæmdarinnar nemur 6 milljörðum króna. Mannvirki Bláa Lónsins munu tvöfaldast að stærð. Heildarstækkun á núverandi- og nýju upplifunarsvæði ásamt hóteli nemur um 10.000 fm. Á framkvæmdatíma sem áætlað er að verði tvö ár munu 150 starfsmenn starfa við verkefnið.

Eitt hundrað ný störf í ferðaþjónustu
Gert er ráð fyrir 100 nýjum störfum í tengslum við stækkun upplifunarsvæðis Bláa Lónsins og mun hluti starfsfólks hefja störf á framkvæmdatíma. Störfin verða fjölbreytt, en eins og önnur störf hjá fyrirtækinu munu þau miða að því að veita gestum Bláa Lónsins góða og fágaða þjónustu.

Heimild: Grindavík.is